Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skortur á úrræðum fyrir veikasta hópinn

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson/RÚV
Unglingar í harðri neyslu hafa orðið útundan í kerfinu, segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Í vor ákvað sjúkrahúsið að hætta að taka við unglingum - en gerir það þó enn - því stjórnvöld hafa ekki fundið annað úrræði. Sérfræðingar telja þörf á fjölbreyttari lausnum fyrir hópinn. 

 

Um 20 ungmenni undir átján ára neyta vímuefna í æð og fleiri eru í harðri neyslu af öðru tagi. Barnaverndarstofa hefur umsjón með félagslegum úrræðum fyrir þennan hóp. Á Stuðlum er neyðarvistun og meðferðardeild og úti á landi eru tvö langtímameðferðarheimili þar sem unglingarnir dvelja að jafnaði í ár. Sumir úr hópnum þurfa einnig sérhæfða heilbrigðisþjónustu, hana hafa þeir fengið á Vogi.  „Við höfum talað um það lengi að það er skortur á heilbrigðisúrræðum fyrir þennan yngsta hóp sem er í hættulegri vímuefnaneyslu og er líkamlega veikur. Þau eru svolítið útundan.“

Barna- og unglingageðdeild Landspítalans geti ekki sinnt þessu og Bráðamótttaka barna eigi erfitt með það. Oft þurfi ungmennin afeitrun eða lyfjagjöf en þau fái líka einstaklingsmiðaða meðferð með hópfundum, verkefnum og samtölum. Þá sé eftirfylgni sinnt á göngudeild auk þjónustu við foreldra, fyrir þá þjónustu fái Vogur engin framlög frá ríkinu.  

Eitt barn sem skaðist einu of mikið

Unglingarnir dvelja á lokaðri deild sem ætluð er 16 til 20 ára en eiga þó í einhverju samneyti við eldri sjúklinga. Í apríl var greint frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði til rannsóknar kynferðisbrot gegn sextán ára stúlku, sem átt hefði sér stað inni á Vogi. Stuttu síðar tilkynnti SÁÁ að hætt yrði að veita ólögráða einstaklingum meðferð á sjúkrahúsinu, það að eitt barn hafi hugsanlega orðið fyrir skaða sé einu of mikið. Þá kom fram að Vogur hefði ekki tök á að hafa unglingana í öðru húsnæði.  Í samráði við stjórnvöld var þrátt fyrir þetta ákveðið að Vogur myndi áfram sinna hópnum þar til önnur úrræði væru í augsýn. Valgerður segir að fram hafi farið alls kyns vinna í ráðuneytinu.

Enn bólar þó ekkert á nýju úrræði. 

„Við bara biðjum um samkomulag um það hvernig það á að vera en höfum ekki fengið nein skilaboð frá ráðuneytinu,“ segir Valgerður. 

Þörf á fleiri meðferðardeildum

Þetta er ekki eini vandinn. Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla segir tvær meðferðardeildir ekki nóg .Barnaverndarstofa telur einnig þörf á fleiri félagslegum úrræðum fyrir hópinn. Heiða Björg Pálmadóttir, starfandi forstjóri Barnaverndarstofu, segir ekki skorta pláss, það skorti fyrst og fremst fjölbreyttari úrræði. Árið 2015 samþykktu stjórnvöld að setja á fót nýtt sérhæft langtímameðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu. Heiða segir það  í samræmi við nýjar áherslur, að ungmenni fái meðferð nálægt heimabyggð, þá tengist þetta breytingum á samsetningu þess hóps sem fær þjónustu á meðferðarheimilum. Þriggja ára leit að lóð eða húsnæði undir heimilið hefur enn ekki borið ávöxt. „Þetta er náttúrulega stór lóð sem við erum að leita eftir og  höfum ansi sérhæfðar þarfir þannig að það er ekki einfalt að finna lóð.“

Hún segir þó blikur á lofti, leitað hafi verið til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir kostir nú til skoðunar. 

Nýtt stuðningsheimili opnar í haust

Við þetta má bæta að Barnaverndarstofa hyggst opna stuðningsheimili fyrir unglinga sem lokið hafa meðferð í Norðlingaholti. Það á að opna í haust. Á heimilinu verður pláss fyrir tvö til þrjú ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára og er gert ráð fyrir að þau geti búið þar til tvítugs, á meðan þau eru að læra að standa á eigin fótum. Sambærilegt úrræði er ekki til í dag.

Nokkur óánægja ríkti með áformin meðal íbúa í Norðlingaholti. Í tilkynningu sem Barnaverndarstofa sendi íbúum í júní segir: „Skilyrði fyrir búsetu á heimilinu er að vera án vímuefna, stunda skóla eða vinnu og fara eftir reglum heimilisins. Mikið verður lagt upp úr öryggi og vernd og verða ávallt 2 til 3 starfsmenn á vakt.“