Skorið niður til að mæta lægri tekjum

15.06.2013 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að niðurskurðaráætlanir ríkisstjórnarinnar liggi fyrir síðar í þessum mánuði. Verði frumvörp um veiðigjald og virðisaukaskatt af gistiþjónustu að lögum minnka tekjur ríkissjóðs samtals um nærri tólf milljarða, á þessu ári og því næsta.

Verði frumvarp um lækkun veiðgjalds að veruleika þýðir það töluvert minni tekjur í ríkissjóð en áætlað hafði verið. Munurinn fyrir þetta ár og það næsta er 9,6 milljarðar. Bjarni segir fráfarandi ríkisstjórn hafa gert ráð fyrir alltof miklum tekjum af veiðigjaldi í sínum áætlunum.

Verði frumvarp um óbreyttan virðisaukaskatt á gistiþjónustu að veruleika verða tekjur ríkissjóðs tveimur milljörðum króna lægri en ráðgert hafði verið. Við þessu segir Bjarni: „Ef að samkeppnishæfni greinarinnar er ógnað, þá fara færri ferðamenn með flugi, það fara færri ferðamenn á veitingastaði, leigja bíla og versla í verslunum á Íslandi og kaupa aðra þjónustu. Þannig að það er í því stóra samhengi sem þarf að skoða þessa aðgerð.

Bjarni segir stefna í 30 milljarða króna halla í ár. Því sé unnið að því að í ráðuneytunum að kanna hvar megi skera niður til að mæta lægri tekjum. Fyrir lok júní ættu áætlanir um niðurskurð að liggja fyrir. „Þegar menn eru með hagræðingarkröfu ár eftir ár, þrengist alltaf um kostina til að draga saman seglin. Hvaða kostir eru þá eftir? Kostirnir sem við stöndum frammi fyrir eru ekkert margir. Þess vegna leggjum við svona mikla áherslu á að auka tekjurnar. Það er algjört grundvallaratriði. Ef hagvaxtaráætlanir hefðu gengið eftir væri ríkissjóður ekki rekin með halla í dag.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi