Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skorar á ráðherra að taka á fatamálum lögreglu

08.09.2019 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Varaformaður Landssambands lögreglumanna segir villta vestrið ríkja í fatamálum lögreglumanna með tilheyrandi kostnaði. Hann skorar á nýjan dómsmálaráðherra að taka á málinu sem fyrst. Ríkislögreglustjóri furðar sig á yfirlýsingum frá stjórn Landssambands lögreglumanna um óánægju í fata- og bílamálum. 

Í tilkynningu sem landssamband lögreglumanna sendi frá sér í gærkvöld  fagnar stjórnin ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að fara fram á alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. Það sé löngu tímabært. Frímann B. Baldursson varaformaður landssambands lögreglumanna segir að engin stefna hafi verið í fatamálum lögreglumanna í nokkur ár. 

„Eins og staðan er það núna þá ríkir villta vestrið í fatamálum lögreglu, lögreglustjórar sjálfir ákveða hvernig þeir hafa þetta hver hjá sínu embætti sem gerir það að verkum að þeir eru að kaupa á nokkrum stöðum,“ segir Frímann.  „Það hefur auga leið að á meðan það eru ekki samningar gæti þetta verið dýrara að einhverju leyti.“

Dómsmálaráðherra ákvað í síðustu viku að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra frá og með næstu áramótum. Óánægju hefur gætt innan lögregluembætta vegna reksturs bílamiðstöðvarinnar. 

Aðgerða þörf til að tryggja frið innan lögreglunnar

Frímann segir að öryggi lögreglumanna þurfi að vera í fyrirrúmi. Lögreglustjórar eigi að geta valið bíla sem uppfylli allar kröfur fyrir akstur í forgangi. „Ég myndi segja að nýr dómsmálaráðherra þyrfti að taka á því að koma heildstæðri stefnu á þessum málum hjá lögreglunni í landinu, hvernig fatamálin eiga að vera og hvernig bílamálin eiga að vera,“ segir Frímann jafnframt.

„Það er ekki gott fyrir lögreglumenn að hafa þessi mál í ólagi. Til að það komist á friður innan lögreglunnar, þá þarf að grípa hratt inn í,“ bætir hann við.

Embætti Ríkislögreglustjóra sendi frá sér fréttatilkynningu skömmu fyrir fréttir þar sem það furðar sig á yfirlýsingum landssambandsins. Stjórnin hafi ekki haft samband við embættið til að ræða áhyggjur eða umkvörtunarefni. Landssambandið eigi fulltrúa í fata, búnaðar og bílanefnd embættisins. Þá segir Ríkislögreglustjóri tímabært að hugað verði að framtíðarskipan lögreglu og skynsamlegt að stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda myndi beinast að heildarendurskoðun lögreglumála í landinu.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV