Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skora á veiðimenn að sleppa löxum

20.07.2019 - 08:47
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Hafrannsóknastofnun hefur sent út áskorun til veiðifélaga og stangveiðimanna, þar sem hvatt er til hófsemi og að sem flestum veiddum löxum verði sleppt, til að hrygningarstofninn í haust verði eins stór og frekast er unnt.

Laxveiði hefur verið dræm það sem af er sumri og segir í áskoruninni að fyrir því séu nokkrar ástæður. Óvenjulitlit klakárgangur árið 2015 hafi leitt til þess að gönguseiðaárgangar hafi verið litlir og skilað sér í fremur litlum smálaxagöngum 2019 og fáum stórlöxum 2019. Lítið vatn í ánum í sumar hafi auk þessa orðið til þess að aðstæður fyrir uppgöngu laxa og veiði séu með versta móti, líkt og veiðitölur bera með sér. 

Það sé á valdi veiðimanna að gæta þess að hrygningastofnar séu nægilega stórir til að nýta þau búsvæði sem árnar búa yfir til seiðaframleiðslu. „Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að hrygningarstofnar haustsins verða með minnsta móti og hvetur Hafrannsóknastofnun veiðimenn og veiðiréttarhafa til að gæta hófs við veiðar og sleppa sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar,“ segir í áskorun Hafrannsóknastofnunar.