Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skora á Írana að halda aftur af sér

epa08107906 The North Atlantic Treaty Organization (NATO) banners are displayed in front of the NATO headquarter in Brussels, Belgium, 06 January 2020.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Atlantshafsbandalagið hefur frestað þjálfun írakskra hermanna um óákveðinn tíma. Skorað er á ráðamenn í Íran að binda enda á ofbeldisverk og ögranir og koma þannig í veg fyrir að spenna aukist enn frekar í Miðausturlöndum. Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna minnir Bandaríkjamenn og Írana á að báðar þjóðir eiga aðild að samningnum um vernd menningarminja.

Sendiherrar Atlantshafsbandalagsríkja komu saman til aukafundar í dag í Brussel vegna versnandi ástands í Miðausturlöndum eftir að Bandaríkjaher tók Qasem Soleimani, íranskan hershöfðingja, af lífi fyrir helgi. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri sagði eftir fundinn að ákveðið hefði verið að fara fram á það við ráðamenn í Íran að láta af ofbeldisverkum og ögrunum til að auka ekki enn frekar á spennuna. Þá var ákveðið að fresta um óákveðinn tíma þjálfun írakskra hermanna sem Atlantshafsbandalagið hefur haft með höndum. Það er gert til að tryggja öryggi hermannanna.

Audrey Azoulay, yfirmaður Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, minnti stjórnvöld í Íran og Bandaríkjunum á það í dag að báðar þjóðirnar eiga aðild að samkomulagi um verndun menningarsvæða. Þessi varnaðarorð eru til komin vegna yfirlýsingar Trumps Bandaríkjaforseta um að menningargersemar Írana verði skotmörk ef þeir grípi til hefndaraðgerða vegna aftöku Soleimanis hershöfðingja.