Skólp Árborgar og Álftaness með gamla laginu

11.07.2017 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes
Ekki hefur enn verið byrjað á skólphreinsistöð á Selfossi sem ákveðið var að byggja fyrir fjórum árum því beðið er umhverfismats. Skólpi er nú veitt óhreinsuðu í Ölfusá. Skólp af Álftanesi er heldur ekki hreinsað eða um 10% af skólpi bæjarins. 

Í fréttum sumarið 2013 voru birtar nokkuð óhuggulega myndir af skólpi í Ölfusá og sagt frá að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefði ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við fráveitu Árborgar. Sveitarfélagið bætti úr og veitti skólpinu í eitt holræsi og lengra út í ána og vaktar nú mengun í ánni reglulega. Ákveðið var að reisa skólphreinsistöð, sem grófhreinsar skólpið, og vélar í hana voru keyptar. En hins vegar bárust athugasemdir við deiliskipulag stöðvarinnar og því þótti bænum ekki stætt á öðru en að láta gera umhverfismat. Það verður hins vegar ekki tilbúið fyrr en á næsta ári. 

„Við hefðum viljað vera byrjuð á þessum framkvæmdum. Og manni finnst kannski skjóta svolítið skökku við að það þurfi að fara í þetta tímafreka umhverfismat þegar meiningin er einungis að gera náttúrunni til góða. En það er óhjákvæmilegt og við erum stödd í því ferli núna,“ segir Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri Árborgar.

Skólp í Garðabæ er að langstærstum hluta sent í skólpdælustöðina biluðu við Faxaskjól í Reykjavík og þaðan í hreinsistöðina í Ánanaustum. Skólp úr Urriðaholti er hins vegar sent til Hafnarfjarðar. Fráveitan á Álftanesi er hins vegar enn með gamla laginu og þaðan koma um fimm til 10 prósent af öllu skólpi í bænum. En þar er rotþróarkerfi og er skólpi dælt úr um holræsalögn við Hrakhólma á sunnanverðu nesinu. Um 70% af skólpi Álftanes fer þar um.  

„Svo eru minni rotþrær á nokkrum húsum og þar munum við vinna með verkfræðistofu að heildrænni lausn þegar fram líða stundir“ segir Sigurður Hafliðason áhaldahússtjóri Garðabæjar. Reisa á skólphreinsistöð á Álftanesi en hvenær hefur ekki verið ákveðið.