
Skólinn réttir Álfrúnu björgunarhring
Í kvöldfréttum sjónvarps í gær var rætt við Álfrúnu Pálmadóttur sem að óbreyttu fær ekki fæðingarstyrk námsmanna því hún fór í sex mánaða starfsnám erlendis. Þá átti hún heldur ekki rétt á fæðingarorlofi þar sem hún var ekki að vinna sem launþegi á þessu tímabili.
Álfrún útskrifaðist frá Myndlistarskólanum í Reykjavík áður en hún hélt í starfsnámið og ákváðu stjórnendur skólans í dag að meta umrætt starfsnám til eininga. Í samtali við fréttastofu nú síðdegis sagðist Álfrún ekki hafa heyrt frá Fæðingarorlofssjóði vegna málsins en hún vonast þó til þess að þetta verði til þess að hún eigi rétt á fæðingarstyrknum.
Mál Álfrúnar ekki einsdæmi
Mál Álfrúnar eru ekki einsdæmi. Á dögunum ákvað Margrét Erla Maack að safna fyrir fæðingarorlofinu á söfnunarsíðu, en hún er sjálfstætt starfandi og var það mat sjóðsins að innkoma hennar dugði teldist ekki full inkoma.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir það óásættanlegt að fólk sem hafi verið virkir þátttakendur í samfélaginu og greitt skatta sína og skyldur skuli lenda utan kerfisins.
„Samkvæmt mínum upplýsingum þá eru þetta ekki mjög margir. Það þarf að tryggja engu að síður rétt þessara einstaklinga sem um ræðir. Ég veit það að félagsmálaráðherra er að skoða þetta sérstaklega og ég mun halda honum við efnið.“
Nefnd ráðherra hefur störf
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, skipaði síðsumars nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laga um fæðingar- og foreldraorlof. Nefndin hefur hafið störf og mun hún meðal annars skoða þessi mál, sem og önnur mál er úrskurðir hafa fallið um, svo sem fósturmissi á meðgöngu, makamissi, námsmenn og sjálfstætt starfandi. Friðrik Már Sigurðsson er formaður nefndarinnar.
Nefndin kemur víðs vegar að, með víða skírskotun, skipuð þannig að við störfum vandlega að málum.