Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skóla-og frístundasvið á móti áfengisfrumvarpi

10.03.2017 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Meirihluti skóla-og frístundasviðs Reykjavíkur lagði fram bókun á fundi sínumí vikunni þar sem frumvarpi um afnám einkasölu ÁTVR á áfengi var mótmælt. Fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins stóðu að bókuninni þar sem segir að frumvarpið sé atlaga að þeim árangri sem náðst hafi í forvörnum á Íslandi.

Með samstilltu átaki hafi tekist að draga verulega úr áfengisneyslu fimmtán til sextán ára ungmenna sem neyti minna áfengis en jafnaldrar þeirra í Evrópu. Þá er í bókuninni sögð sérstök ástæða til að vara við því ákvæði í nýjustu útgáfu frumvarpsins sem heimilar að auglýsa áfengi án veigamikilla takmarkana. Meirihluti skóla-og frístundaráðs Reykjavíkur segir að sú breyting að leyfa áfengisauglýsingar fæli í sér grundvallar stefnubreytingu stjórnvalda gagnvart markaðssetningu áfengis í samfélaginu.

Í bókuninni hvetur meirihlutinn Alþingi til að hafna frumvarpinu með hag barna og ungmenna á Íslandi í huga. 

Fram kom í fréttum fyrr í dag að skólameistarar Flensborgar, Kvennaskólans og Menntaskólans á Egilsstöðum hefðu sent inn umsögn um áfengisfrumvarpið þar sem þeir lýsa andstöðu sinni við það. Árni Ólason skólameistari ME, segir í sinni umsögn að það skjóti skökku við að einstaka þingmenn eyði púðri í að reyna setja áfengi í almennar búðir á Íslandi á meðan Danir séu að reyna losna við þennan vágest úr sínum matvöruverslunum.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, bættist í dag í hóp skólameistara sem leggjast gegn áfengisfrumvarpinu. Hún segir í sinni umsögn að góður árangur hafi náðst í forvörnum gegn unglingadrykkju hér á landi. Það sýni nýlegar evrópskar rannsóknir þar sem fram komi að íslenskir unglingar séu ólíklegri en jafnaldrar þeirra í Evrópu til að hafa drukkið áfengi. Þá hafi skemmtanamenning I framhaldsskólum verið að breytast til hins betra og í VMA hafi tekist að halda úti félagslífi nemenda án áfengis í nær tvo áratugi. Sigríður Huld lýsir einnig áhyggjum sínum yfir því að frumvarpið geri ráð fyrir að leyfilegt verði að auglýsa áfengi. Slíkar auglýsingar geti gert áfengisneyslu aðlaðandi fyrir áhrifagjörn börn og unglinga. 

 

Fjögur sveitarfélög hafa skilað inn umsögn sinni um frumvarpið - Flóahreppur, Hornafjörður, Vogar og Seltjarnarnesbær.  Öll eru andvíg því að frumvarpið verði samþykkt. „Við eigum að láta hagsmuni og velferð barna og ungmenna njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði,“ segir í umsögn Seltjarnarnesbæjar.