Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skógræktin skaffar Elkem við

30.12.2013 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Skógrækt ríkisins hefur útvegað járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga tæplega 3.000 rúmmetra af viði til brennslu á þessu ári. Það er mun meira en áætlað var enda nóg til af nýtilegum skógarvið á Íslandi.

Lerki- og furubolir frá Vöglum á Þelamörk í Hörgárdal eiga fyrir höndum ferðalag suður í Hvalfjörð þar sem þeir verða kurlaðir og notaðir sem kolefnisgjafi í verksmiðju Elkem á Grundartanga. 

„Það er verið að taka þetta úr gömlum gróðursetningastykkjum sem þarf að grisja og er nauðsynlegt að grisja. Það bara hefur tvíþættan tilgang að skaffa efni og skógurinn þarf sína grisjun,“ segir Guðni Þorsteinn Arnþórsson hjá Skógrækt ríkisins á Norðurlandi. 

Elkem hefur verið stærsti kaupandinn af viði úr íslenskum skógum undanfarin ár. Í fyrra gerði fyrirtækið nýjan 10 ára samning við Skógrækt ríksins þar sem kveðið var á um að skógræktin útvegaði Elkem 1.600 rúmmetra af viði fyrstu árin og 3.200 rúmmetra undir lok samningstímans. Ljóst er að því markmiði verður náð fyrr en ætlað var því í ár hefur tekist að afhenta 2.750 rúmmetra.

Til að setja þessa tölu í samhengi þá eru 35 rúmmetrar á þessum bíl. Það er því búið að selja næstum því áttatíu svona farma. „Við þurfum nú sjálfsagt ekki að fara nema einhver 20 ár aftur í tímann, þá hefði almenningur í landinu ekki trúað því að hér færu heilu treilerarnir um landið með kannski 30 -40 fermetra í ferð.“

Hann segir að örugglega væri hægt að útvega meira. „Það er til nóg af skógi á Íslandi.“