Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skógrækt verður aukin á ný

19.08.2014 - 00:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Eftir niðurskurð undanfarinna ára ætlar ríkisstjórnin að snúa við blaðinu og auka skógrækt. Vonast er til að landsáætlun í skógrækt geti tryggt sátt um hvar má rækta skóg og hvar ekki.

Skógrækt er vaxandi iðnaður, auðvelt er að selja grisjunarvið og mikil eftirspurn er eftir íslenskum borðvið sem framleiddur er hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað. Á sama tíma hefur fjármagn til nýskógræktar bænda minnkað ár frá ári og skógræktarfólk óttast að niðurskurður mörg ár í röð valdi hruni í timburiðnaði eftir nokkar áratugi. 

Framleiðslan hefur auðvitað verið of lítil hjá plöntuframleiðendum undanfarin ár vegna niðurskurðar og sumir þeirra átt mjög erfitt uppdráttar. Það tímabil má ekki verða mikið lengra, hvorki út af þeim né heldur út af því að það mun koma í bakið á okkur í framleiðslu skóganna eftir 30 til 40 ár. Ríkisstjórnin er með plön um að auka skógrækt og landgræðslu, meðal annars til að binda kolefni, og ég vænti þess að í fjárlögum, jafnvel næsta árs eða allavega á næstu misserum, munum við sjá merki þess að við erum að fara í aukna skógrækt," segir Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Ráðherra skoðaði starfsemi Skógræktar ríkisins á Hallormsstað og trjásafnið í mörkinni. Skilyrði til skógræktar fara batnandi en sumir hafa áhyggjur af þróuninni og benda á að gróðursetning á stórum svæðum henti ekki hvar sem er. Skógrækt er af hinu góða en við verðum að hafa einhverja stefnu um hvar við viljum hafa skóg. Við þekkjum Ísland og við þekkjum Noreg og við viljum ekkert verða eins og Noregur,“ segir ráðherra og vísar til þess að víða í Noregi skyggir þykkt myrkviði á allt útsýni.

Fulltrúar Skógræktar ríkisins komu því á framfæri við ráðherra að til að sátt náist um skógrækt þurfi að móta landsáætlun og endurskoða hana á fjögurra ára fresti. „Það er auðvitað skynsamleg leið til sem er þá unnin í sátt og samlyndi við stærri hóp. Sveitarfélögin, aðra landeigendur og auðvitað Íslendinga alla," segir Sigurður Ingi Jóhannsson.