Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skógrækt og landgræðsla hluti af lausninni

10.04.2019 - 09:30
Skógrækt og landgræðsla eru ekki bara mikilvæg til að berjast gegn loftslagsbreytingum heldur líka til að bjarga jarðvegi frá því að spillast og hverfa. Formaður loftslagsráðs segir áhyggjuefni hve mikið frjósemi jarðvegs hafi minnkað á heimsvísu á síðustu tveimur öldum.

Á fagráðstefnu Skógræktarinnar á Hallormsstað var fjallað um loftslagsmál enda hefur aðgerðaáætlun stjórnvalda gert kolefnisbindingu eitt af meginhlutverkum skógræktar. Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, sagði að eftirspurn eftir kolefnisjöfnun muni stóraukast. „Sá ásetningur í Parísar-samningnum að halda röskun veðrakerfanna innan hættumarka, innan við 1,5 gráður á þessari öld, kallar á umbyltingu, þetta er ekki fínstilling á núverandi kerfum. Skógrækt er mjög mikilvægur hluti af lausninni og með skógrækt þá byggirðu upp kolefnisforða bæði neðanjarðar og ofanjarðar. Þú bætir líka lífsgæði á margan hátt með ræktun skóga. Það er líka hægt að skapa verðmæti með skógrækt þannig að skógrækt er vissulega hluti af lágkolefnissamfélagi framtíðarinnar sem við erum að vinna að,“ segir Halldór.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu þurfa Íslendingar að taka þátt í samdrætti í losun frá Evrópska efnahagssvæðinu um 40% fyrir árið 2030. Hlutur Íslands í því verður að minnka sína losun um 29%  miðað við losun árið 1990. Stefnt er að enn meiri árangri og kolefnishlutleysi árið 2040. Stóriðjan er ekki inni í þessum tölum því hún fellur undir viðskiptakerfi með losunarheimildir. Hún þarf að kaupa heimildir og segir Halldór að framboð á þeim verði takmarkað jafnt og þétt. „Við höfum fulla burði til að gera þetta og þær breytingar sem þetta kallar á eru breytingar sem eru til góðs. Það er hægt að ná til baka votlendi sem var ræst fram mun meira heldur en til þurfti á sínum tíma. Við viljum klæða landið skógi þar sem það á við. Síðan er mjög mikil þörf á stórátaki í landgræðslu þannig að það er mjög margt sem tengist landinu.“

Fram kom hjá Landgræðslunni að þegar jarðvegur rofnar og fýkur burt oxist hann og um helmingur lífræns efnis úr jarðveginum losni þá sem koltvísýringur. „Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að kolefni er undirstaða allt lífs á jörðinni og kolefni sem er í jarðvegi er í raun undirstaða fyrir frjósemi jarðvegs. En þegar maður horfir á þetta hnattrænt þá er jarðvegsauðlindin í hnignun og við höfum tapað sem jarðarbúar miklu af jarðvegi og frjósemi jarðvegs hefur líka minnkað vegna þeirra ræktunarhátta sem við notum. FAO sem er alþjóða landbúnaðarmálastofnunin hefur lagt mat á það að náttúruleg frjósemi jarðvegs hafi minnkað um 30%. Þetta er mjög mikið áhyggjuefni því það þýðir að það þarf þá að treysta meira á tilbúinn áburð sem er áhyggjuefni,“ segir Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV