Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skógrækt notuð við endurheimt votlendis

26.11.2015 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ester Ösp Gunnarsdóttir - skogur.is
Skógrækt getur verið öflugt tæki í að binda koltvísýring á framræstu landi við endurheimt votlendis. Fyrstu vísbendingar í rannsóknum þess efnis hér á landi benda til þess að svo sé. Erlendar rannsóknir gefa misvísandi niðurstöður um hvort skynsamlegt sé að nota skógrækt í endurheimt á votlendi.

Rannsóknarverkefni sem hófst á Suðurlandi fyrir um tveimur árum hefur það að markmiði að skoða áhrif skógræktar á framræst land og þá hvort að skógurinn geti á einhverjum tímapunkti hlutleyst þann koltvísýring sem losnar við framræsluna. Koltvísýringurinn sem þurrkað land losar er tvöfalt meiri heldur en öll önnur losun hér á landi. Í sóknaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum er lögð áhersla á endurheimt votlendis.

Brynhildur Bjarnadóttir skógvistfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri segir að þrátt fyrir að endanlegar niðurstöður rannsóknarinnar liggi ekki fyrir þá bendi fyrstu niðurstöður til þess að asparskógur, sem plantað var á framræstu landi fyrir um tuttugu árum, bindi koltvíoxið sem losnar við framræsluna.

„Við erum að sjá mjög mikla bindingu yfir vaxtartímabilið þannig að við gerum okkur vonir um að við séum að fara í rétta átt.“

Brynhildur segir að lítið sé til af rannsóknum á því hvort að skynsamlegt sé að nota skóg til að binda upp losun á koltvísýringu í framræstu landi. Niðurstöður úr þeim rannsóknum sem til eru séu erlendar og gefi misvísandi niðurstöður.

„Við búum í svo sérstöku vistkerfi að við erum aldrei sambærileg við neinar aðrar þjóðir þannig að þess vegna fórum við af stað með þetta til að reyna að sjá hvað myndi gerast.

En má reikna með að skógurinn bindi jafnvel meiri koltvísýring en þann sem þurrkaða landið losar?

Það er erfitt fyrir mig að fullyrða meira en það en ég gæti alveg trúað því en ég á eftir að sjá það á pappírunum.