Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skógarþrestir koma með mítlana til landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Erling Ólafsson - Náttúrufræðistofnun Íslands
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nú safnað nægum sýnum af skógarmítlum til að hefja rannsóknir á sýklum í pöddunum, sem sjúga blóð úr dýrum og geta borið með sér alvarlega sjúkdóma. Enn er leitað að fjármagni til rannsóknanna. Langflestir mítlar fundust á skógarþröstum.

Sjúga blóð og geta borið með sér sjúkdóma

Skógarmítill er pínulítil padda sem heldur sig helst á gróðri í skógarbotnum, en lifir á blóði. Hann krækir sig við dýr og notar svonefnda munnlimi til að grafa sig ofan í húð. Þegar hann er fullur af blóði blæs hann út, en á vef Náttúrufræðistofnunar segir að það sé óráðlegt að reyna að losa mítilinn með því að toga í hann því hann gæti sprungið, vessar sprautast inn í sárið og sýklarnir með. Þá geta munnlimir orðið eftir í sárinu. En helsta áhyggjuefnið er að pöddurnar geta borið með sér sjúkdómsvaldandi sýkla, sem valda Lyme-sjúkdómi og heilabólgu. Hingað til hafa ekki verið gerðar sýklarannsóknir á skógarmítlum og því lítið vitað um þær hættur sem geta stafað af biti þeirra. 

Náttúrufræðistofnun greinir frá því í nýútkominni ársskýrslu að vísindamenn stofnunarinnar og Tilraunastöðvarinnar að Keldum hafi leitað að og safnað skógarmítlum í um fjögur ár til að geta rannsakað þá. Fyrstu árin bar leitin lítinn árangur, en eftir að samstarf við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands hófst var leitað að skógarmítlum á farfuglum samhliða merkingum á fuglunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Zimmermann - Wikimedia Commons
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - Wikimedia
Nær allir skógarmítlarnir fundust á skógarþröstum

Komnir með efnivið en vantar pening

Vorið 2017 fundust skógarmítlar á 85 skógarþröstum og ári seinna fundust svo um 400 skógarmítlar á 38 fuglum, þar af 36 skógarþröstum, svartþresti og laufsöngvara. Ljóst er að skógarþrestir eiga mikinn þátt í að flytja skógarmítla til Íslands, segir Náttúrufræðistofnun. Nú er kominn nægur efniviður til sýklarannsókna á mítlunum, sem eru kostnaðarsamar, og er verið að leita leiða til að fjármagna þær. Þangað til heldur söfnun sýna áfram.