Skóf af bílnum með tilheyrandi danshreyfingum

Mynd:  / 

Skóf af bílnum með tilheyrandi danshreyfingum

18.02.2019 - 15:05

Höfundar

Sýning Íslenska dansflokksins Um hvað syngjum við var til umfjöllunar í Lestaklefanum á föstudaginn. Fríða Rós Valdimarsdóttir sagði sýninguna hafa kveikt í sér og þegar hún hafi þurft að skafa af bílnum sínum, gerði hún það með danshreyfingum.

Íslenski dansflokkurinn sýnir nú á stóra sviði Borgarleikhússins sýninguna Um hvað syngjum við. Höfundurinn er hinn belgíski Pieter Ampe sem vinnur hana í nánu samstarfi við Jakob Ampe, Valdimar Jóhannsson, Barböru Demaret, Jelle Clarise og dansara Íslenska dansflokksins. Gestir Lestarklefans voru þau Borgar Magnason tónlistarmaður, Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindasambands Íslands og Kristína Aðalsteinsdóttir starfsmaður Berg Contemporary gallerís.

Í kynningartexta um sýninguna segir meðal annars: Belgíski danshöfundurinn Pieter Ampe elskar að liggja nakinn í snjónum, dansa í villtum partýum og syngja undir stýri. Og tilhugsunin um björn sem jogglar eplum á einhjóli er fyndin. Þykir sumum. Öðrum finnst hún sorgleg. Að vetri til, í myrkri og drungalegu veðri, lítur fólk einmitt inn á við. Fleygir sér ekki bara allsbert í snjóinn og fer í partí eða keyrir fram og tilbaka í bíl. Það veit Pieter. Nú hefur hann hitt dansara Íslenska dansflokksins, þau Elínu, Andrean, Tilly, Charmene, Felix, Shota, Ernu og Unu. Sum þeirra eru frá Íslandi, önnur eru lengra að komin, en öll nota þau tækifærið til að líta í eigin barm og spyrja sig spurninga. Þau skiptast á spurningum, þau dansa þær og syngja. Því þau hafa öll sögu að segja. Og hvað er fallegra en að syngja saman á meðan niðadimm nóttin líður hjá? 

Mynd með færslu
 Mynd:
Úr sýningu Íslenska dansflokksins, Um hvað syngjum við.

 

„Mér fannst þessi sýning gjörsamlega stórkostleg,“ segir Fríða Rós sem segist hafa velt sýningunni mikið fyrir sér frá því hún sá hana. „Ég hugsaði hvað mig langaði að tala um hana út frá einhverri persónulegri reynslu, sem er svona í anda sýningarinnar. Ég hafði ekki séð dansflokkinn í smá tíma. Þau tala um fjölbreytileikann í samfélaginu, fjalla um öll jaðarmálin, þau eru með þetta allt á hreinu. Mér fannst þetta bara einhvern veginn svona allur skalinn. Þetta kveikti rosalega í mér. Meira að segja þegar ég þurfti að skafa af bílnum þá gerði ég það með svona danshreyfingum,“ segir Fríða Rós.

Kristína Aðalsteinsdóttir hjá Berg Contemporary sagðist mögulega hafa oflesið í opnunaratriði sýningarinnar sem var eins konar skúlptúr en segir að það hafi jafjnframt kallast á við inntak verksins þar sem verið var að byggja upp og rífa niður. „Meðal annars er verið að lyfta dönsurunum upp í valdeflandi frásögnunum,“ segir Kristína. „Ég held að þetta sé geggjuð sýning fyrir til dæmis unglinga, fyrir alla þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í þá átt að vilja vita meira um dans en finnst kannski ógnvekjandi að fara á danssýningu. Bara með því að nota tónlist sem við þekkjum og tala smá, gefur dansflokkurinn miklu betra aðgengi að því sem þau eru að gera, fyrir þá sem ekki þekkja. Til dæmis fyrir mig sem er algjör leikmaður, mér fannst virkilega gaman að upplifa alla þessa þætti sem mótuðu sýninguna.“

Bassaleikarinn Borgar Magnason tók í sama streng. „Það sem mér fannst skemmtilegast við sýninguna var að sjá hvern og einn dansara flokksins í dag, njóta sín og spreyta sig og sýna hvað í þeim í býr. Ég verð bara að segja að mér fannst þeir stórkostlegir, þetta er frábær hópur. Hópurinn græðir mikið á því að fá fjölbreyttan hóp danshöfunda til að vinna með,“ segir Borgar. Hann var afar hrifinn af flæðinu en fannst persónulegar frásagnir dansaranna truflandi. „Mér fannst það stundum drepa niður flæðið, þegar maður var kominn inn í þennan fantasíuheim þá var manni  snögglega kippt út úr honum. Fantasían brotnar og maður stendur og bíður eftir því að verkið fari aftur í gang,“ segir Borgar Magnason, bassaleikari og tónskáld

Tengdar fréttir

Tónlist

Lestarklefinn – frá Beirút til Bagdad

Dans

Dansarar syngja sína sögu