Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skoðar starfsmannamál á næstu vikum

26.07.2015 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Eyjan - Stöð 2
Blöðin ellefu sem Vefpressan keypti nýlega af útgáfunni Fótspor, verða áfram gefin út. Starfsmannamál verða skoðuð á næstu vikum. Þetta segir Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunnar og útgefandi DV.

Vefpressan hefur keypt útgáfurétt ellefu blaða af fyrirtæki Ámunda Ámundasonar, Fótspori ehf. Eru það meðal annars blöðin Akureyri og Reykjavík vikublöð, auk bæjarblaða í Hafnarfirði, Kópavogi, Selfossi og fleiri stöðum. Þá eru einnig um að ræða landshlutablöð fyrir Vesturland, Vestfirði, Austfirði og Reykjanes.

Björn Ingi Hrafnsson, einn eigenda Vefpressunnar, vildi ekki veita fréttastofu viðtal að svo stöddu. Í svari við fyrirspurn fréttastofu sagði hann að Vefpressan sæi með kaupum á útgáfuréttinum tækifæri til vaxtar og að nýta stærðarhagkvæmni fyrirtækisins.

Á laugardag tilkynnti Ámundi starfsmönnum blaðanna, sem allir voru verktakar, að rekstri yrði hætt. Björn Ingi hyggur á áframhaldandi útgáfu en segir ótímabært að tjá sig frekar fyrr en Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd hafi skoðað málið. Mönnun blaðanna verði skoðuð á næstu vikum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sendi Ámundi fjölmiðlanefnd bréf fyrir nokkru. Þar sem hann segir ástæðu sölunnar vera að hann skorti þrek sökum aldurs til að halda rekstrinum áfram. Rekstri Fótspors verði hætt og Ámundi og sonur hans muni áfram starfa að útgáfunni undir merkjum Pressunnar.

Umsvif Björns Inga í fjölmiðlum hafa aukist mikið síðan hann sagði skilið við pólitík sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Pressan.is var stofnuð árið 2009. Síðar bættust við Bleikt.is, kaup á Eyjunni og síðar kaup á DV ehf sem vöktu mikla athygli á síðasta ári. Þá hefur Björn Ingi stýrt umræðuþættinum Eyjan á Stöð 2.