Skoðanaskipti um stjórnarskrána nauðsynleg

23.09.2016 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Það er brýnt að skiptast á skoðunum um stjórnarskrána og fólk verður að geta skilið hana rétt. Þetta segir forseti Íslands. Hann tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um stjórnarskrána á Akureyri í morgun.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt upphafserindi á ráðstefnunni sem haldin er í Háskólanum á Akureyri. Þar ræða fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar og gestir endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar.

Þurfum að þekkja stórnarskrána

Forseti Íslands telur mjög mikilvægt að opin umræða eigi sér stað um stjórnarskrána. „Við þurfum að þekkja stórnarskrána og við þurfum að geta rætt um hana. Því að hún er grundvöllur okkar stjórnskipunar," segir hann. „Og þessi ráðstefna er frábært dæmi um það hvað skoðanaskipti eru brýn þegar stjórnarskráin er annars vegar.“

Þarf að vera í stöðugri umræðu

Á ráðsefnunni spurði ungur ráðstefnugestur um það hvort stjórnarskráin þyrfti ekki að vera aðgengilegri fyrir ungt fólk. Jafnvel skrifuð á þægilegra og þá jafnframt skiljanlegra máli. „Því hefur verið haldið fram í umræðum um stjórnarskrána allt frá upphafi vega, að sumt í henni sé óskýrt, þversagnakennt, stangist á, þurfi að vera skýrara, jafnvel á betri íslensku,“ segir Guðni. „Ég legg ekki beinlínis dóm á það. En þetta er eitt af því sem þarf að vera í stöðugri umræðu og auðvitað er brýnt að landsmenn kynni sér stjórnarskrána og þykist geta skilið hana rétt.“      

Vill ekki spá fyrir um hugsanlegar breytingar  

Í ræðu sinni rakti Guðni hvernig forsetar lýðveldisins hafa umgengist stjórnarskrána og starfað samkvæmt henni, hver á sinn hátt. Aðspurður vill hann ekki spá fyrir um hvort hann muni í sinni forsetatíð upplifa þar veigamiklar breytingar. „Stjórnarskránni hefur nú verið breytt í ýmsum atriðum, þannig að fyrri forsetar hafa fylgst með því ferli. Látum það koma á daginn hvort stjórnarskrá lýðveldisins verður breytt í veigamiklum atriðum og hvenær það gerist," segir hann.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi