Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skoða stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

23.01.2018 - 20:07
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðastiklur/Þór Freysson  - RÚV RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að skipuð verði þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Allir flokkar á Alþingi fá sinn fulltrúa í nefndinni og sömu sögu er að segja af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Auk þess verður óskað eftir tilnefningum sveitarfélaga á tveimur fulltrúum.

Nefndin á að skilgreina mörk þjóðgarðs á miðhálendinu og setja fram áherslur um skiptingu landssvæða innan hans í verndarflokka. Þar að auki á nefndin að fjalla um hugsanlegar aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar, svæðisskiptingu og rekstrarsvæði auk þess að greina tækifæri sem felast í stofnun þjóðgarðs fyrir byggðaþróun og atvinnulíf. 

Með nefndinni starfar samráðshópur náttúruverndarsamtaka, útivistarsamtaka, og samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, landbúnaði og orkumálum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV