Skoða lagabreytingar vegna Klausturmálsins

14.01.2019 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisnefnd Alþingis skoðar nú hvort lagabreytingar þurfi til að Klaustursmálið fái faglega meðferð. Annar varaforseti segir málið vesen frá upphafi. Varamenn þingmanna Miðflokksins vita ekki hversu lengi þau munu sinna þingstörfum, en þingmaður Samfylkingar snýr að öllum líkindum til baka úr leyfi í byrjun febrúar.

Ræddu Klausturmálið á fundi í dag

Forsætisnefnd Alþingis kom saman í dag, en nefndarstörf hefjast á morgun eftir jólafrí. Meðal þess sem forsætisnefnd ræddi var meðferð Klausturmálsins, en allir nefndarmenn hafa lýst sig vanhæfa í málinu. Eins og staðan er þarf forsætisnefnd að fjalla um málið svo að siðanefnd Alþingis geti tekið það fyrir. 

„Það er ekki búið að afgreiða málið. Staðan er bara þannig að erindið er inni í nefndinni, allir hafa lýst sig vanhæfa. Nú er bara verið að skoða alla kosti til þess að ljúka málinu með einhverjum hætti,” segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og 2. varaforseti Alþingis.

„Búið að vera vesen frá upphafi”

Spurður hvaða kostir séu þá mögulegir segir Brynjar að því hafi verið velt upp hvort það þurfi að breyta lögum eða reglum í kring um þetta.

„Þannig að það sé einhver farvegur fyrir málið.”

Þetta hljómar eins og pínu vesen.

„Já, þetta er búið að vera vesen frá upphafi,” segir Brynjar. 

Ekki einhugur um leiðir

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kynnir mögulegar leiðir fyrir formönnum þingflokkanna á morgun. Brynjar segir menn enn ósammála um hvaða leiðir skuli fara. 

„Það er ekkert mikill einhugur, almennt. Og menn hafa mismunandi skoðanir á þessu. Það er auðvitað bara eðlilegt, þetta er ekki einfalt mál úrlausnar. Menn þurfa samt að komast að einhverri niðurstöðu með einum eða öðrum hætti,” segir Brynjar.  

Hafa ekki svarað fyrirspurnum í margar vikur

Þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, fóru í launalaust leyfi frá þingstörfum eftir Klausturmálið fyrir einum og hálfum mánuði, 30. nóvember. Viku síðar tilkynnti Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, að hann tæki sér tveggja mánaða launalaust leyfi eftir að trúnaðarráð Samfylkingar veitti honum formlega áminningu fyrir að áreita konu síðasta sumar. 

Þingmennirnir þrír hafa ekkert látið ná í sig undanfarnar vikur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu. Bergþór er formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Gunnar Bragi situr í utanríkismálanefnd og Ágúst Ólafur í fjárlaganefnd, en enginn þeirra situr fundi nefndanna á morgun.

Vita ekki hversu lengi þau sitja á þingi

Una María Óskarsdóttir, varamaður Gunnars Braga, segist í samtali við fréttastofu ekki vita hversu lengi hún muni sitja á þingi, en hún mæti á nefndarfundi á morgun. Það sama segir Jón Þór Þorvaldsson, varamaður Bergþórs. 

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir tekur sæti fyrir Ágúst Ólaf á morgun. Hún staðfestir að hún sitji út sjötta febrúar, en þá eru liðnir tveir mánuðir frá því að hann fór í leyfi. 

Fyrsti þingfundur verður 21. janúar.