Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skoða hvort og þá hvernig megi bæta tjón

29.08.2015 - 12:20
Kynning á niðurstöðum aðgerða ríkisstjórnar Íslands vegna leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og lækkunar höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar.
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra segir nú skoðað hvort og hvernig sé hægt að bæta tjón sem falli utan viðlagatryggingar vegna rigningarinnar á Siglufirði. Hann segir heimamenn hafa komið í veg fyrir frekara tjón og bjargað miklum verðmætum með markvissum viðbrögðum.

Sigmundur Davíð óskaði eftir því í gær að kallaður yrði saman hópur ráðuneytisstjóra til að fara yfir þá stöðu sem skapast hefur á Siglufirði vegna rigningar undanfarna daga.

„Það er mjög mikilvægt við svona aðstæður að fá sem besta yfirsýn yfir stöðuna og nauðsynleg viðbrögð. Þess vegna munu þessir ráðuneytisstjórar halda utan um það í dag og næstu daga. Fulltrúar þeirra stofnana sem að hafa þarna hlutverki að gegna eru þegar komnir á staðinn og byrjaðir að veita upplýsingar. Öllum ber þeim saman um að þó að tjónið sé gríðarlegt þá hafi heimamönnum tekist að vinna þarna gríðarlegt þrekvirki í að koma í veg fyrir frekara tjón og hafi með skjótum og markvissum viðbrögðum náð að bjarga miklum verðmætum,“ segir Sigmundur Davíð. 

Tjón hefur orðið á húseignum, vegum og holræsakerfi svo dæmi séu tekin og því ljóst að fjárhagslegt tjón er nokkuð. Sigmundur Davíð segir bætur til skoðunar. 

„Það er ljóst að viðlagatrygging mun bæta stærastan hluta tjónsins. Það eru samt ákveðnir hlutir sem falla þarna fyrir utan eins og til dæmis skemmdir á görðum og planið við heilsugæsluna svo ég nefni dæmi. Þetta eru hlutir sem menn munu þá skoða sérstaklega. Hvort og þá hvernig það er hægt að bæta. Það er stór hluti í þessarar vinnu,“ segir Sigmundur.