Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skoða hvort arðgreiðslur séu í raun bónusar

04.04.2017 - 14:29
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, á skrifstofu sinni.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Mynd: RÚV
Fjármálaeftirlitið kannar hvort tilteknar arðgreiðslur úr fjármálafyrirtækjum hafi í raun verið bónusar. Alþingi setti fyrir nokkrum misserum lög sem takmarka kaupauka.

Samkvæmt lögum mega kaupaukar eða bónusar í fjármálafyrirtækjum ekki vera hærri en sem nemur fjórðungi af árstekjum viðkomandi starfsmanns. Á aðalfundi Kviku banka í mars var samþykkt að greiða svonefndnum B-hluthöfum rúmlega 500 milljónir króna í arð. Þeir eru samkvæmt upplýsingum fréttastofu mest megnis starfsmenn bankans. Þetta fyrirkomulag mun tíðkast hjá fleiri fjármálafyrirtækjum. Forstjóri Kviku hefur þvertekið fyrir að með þessu sé verið að fara framhjá kaupaukareglum.

Fjármálaeftirlitið segist, í svari við fyrirspurn fréttastofu, ekki gera athugasemd við að starfsmenn fjármálafyrirtækja, að undanskildum starfsmönnum innri endurskoðunar, fjárfesti í hlutabréfum vinnuveitenda sinna. Fjárfestar eigi líka almennt rétt til arðs af fjárfestingum sínum, án þess að arðgreiðslurnar teljist til kaupauka. Einnig megi fjármálafyrirtæki skipta hlutabréfum sínum í sérstaka flokka.

Fjármálaeftirlitið staðfestir þó að tekið hafi verið til skoðunar hvort sérstakar aðstæður valdi því að arðgreiðslur til ákveðinna hluthafaflokka í tilteknum fjármálafyrirtækjum hafi falið í sér kaupauka.

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV