Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skoða fjárframlög til kirkjunnar á morgun

13.08.2015 - 17:58
Mynd með færslu
Hallgrímskirkja í Reykjavík. Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Biskup Íslands segir að þjóðkirkjan sé komin að þolmörkum. Ekki sé lengur hægt að greiða starfsfólki laun vegna niðurskurðar. Innanríkisráðuneytið ætlar að fara yfir fjárframlög til kirkjunnar.

Í byrjun árs sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra að stefnt væri að því að endurgreiða þjóðkirkjunni 660 milljóna niðurskurð sem hún tók á sig umfram aðrar stofnanir eftir efnahagshrunið 2008. Ekki náðist í ráðherra í dag en þær upplýsingar fengust frá innanríkisráðuneytinu að málið væri á dagskrá á morgun.

Aukafundur kirkjuþings á morgun vegna aðahaldaðgerða
Það er einmitt á morgun sem kirkjuþing kemur saman og ætlar að taka ákvörðun um hvort samþykkja eigi aðhaldsaðgerðir sem gripið var til eftir hrun. Svokallað kirkjujarðarsamkomulag hefur verið í gildi á milli ríkis og þjóðkirkju, sem er sjálseignarstofnun, frá árinu 1997. Það gengur út á að kirkjan gefi ríkinu jarðir og fái á móti framlög frá ríkissjóði.

Kirkjan þoli ekki frekari niðurskurð
Frá hruni hefur kirkjuþing samþykkt viðauka við samkomulagið sem snýr að því að framlög til kirkjunnar lækki í samræmi við almennan niðurskurð annarra ríkisstofnana. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hafi kirkjuþing samþykkt þetta samkomulag eitt ár í einu. Nú sé svo komið að kirkjan þoli ekki frekari niðurskurð. „Ef áframhaldandi niðurskurður verður gagnvart kirkjunni getur hún ekki axlað ábyrgð og sinnt þeim skyldum sem henni ber að sinna,“ segir biskup. 

Kirkjuráð hefur boðað til aukafundar kirkjuþings á morgun og leggur til að viðaukanum verði hafnað. Fari svo gæti málið endað fyrir gerðardómi.