Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skjót viðbrögð lögreglumanns á Akureyri

23.10.2019 - 14:39
Mynd: RÚV / RÚV
Snör handtök lögreglumanns á Akureyri björguðu því að ekki fór verr þegar mannlaus bílaflutningabíll rann af stað við enda Þórunnarstrætis í gær. Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að ofan.

Mildi að ekki fór verr

Börkur Árnason, lögreglumaður, var fljótur að átta sig á stöðunni þegar bíllinn fór af stað. „Við fengum bíl frá Bílabjörgun til að aðstoða okkur við draga bíl í götunni. Þrátt fyrir að hafa verið í handbremsu fór björgunarbíllinn að renna. Við hlaupum af stað og ég rétt næ að hoppa inn og bremsa áður en bíllinn skellur á fleiri bíla,“ segir Börkur.

Mikil hálka í bænum

Nokkur minniháttar umferðaróhöpp urðu innanbæjar á Akureyri í gær. Mikið snjóaði í bænum og hálka myndaðist á götum bæjarins. Að sögn lögreglunnar urðu engin meiðsl á fólki en talsvert tjón á bílum.