Skjátími barna eins og skyndifæði

06.08.2017 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Umboðsmaður barna í Bretlandi segir að börn verji of miklum tíma fyrir framan skjái. Foreldrar verði að hindra að börn ofnoti samfélagsmiðla og að skjátími sé „eins og skyndifæði“.

Skjátími barna, sá tími sem börn verja fyrir framan tölvuskjá eða snjalltækjaskjá, hefur aukist jafnt og þétt og gagnrýnir umboðsmaðurinn, Anne Longfield, aðferðir samfélagsmiðla til þess að draga börn að skjánum sem veldur því að þau eyði sífellt meiri tíma í tölvum og snjalltækjum.

Í viðtali við breska blaðið Observer, segir Longfield að verið sé að hrinda af stað herferð til að hjálpa foreldrum við að stemma stigu við aukinni skjánotkun. Notaðar verði sömu aðferðir og við að hvetja foreldra til þess að stýra mataræði barna sinna á hollari brautir. „Allir foreldrar munu tala um þetta, sérstaklega í sumarfríinu - að börnin séu í hættu á að nota samfélagsmiðla eins og sælgæti og að skjátími þeirra sé eins og skyndifæði,“ segir hún.

„Þegar símar, samfélagsmiðlar og tölvuleikir fylla okkur áhyggjum, streitu og stjórnleysi, er það merki um að eitthvað sé í ójafnvægi. Hvað varðar mataræðið, þú veist að það er í ójafnvægi er þér líður illa. Hið sama gildir um samfélagsmiðla,“ segir Longfield.

Nýleg bresk rannsókn leiddi í ljós að bresk börn á aldrinum 5 til 15 ára verji nú allt að fimmtán klukkustundum á viku á netinu. Elsti hópurinn, börn 12 til 15 ára eyðir yfir tuttugu klukkustundum á viku á netinu.

Longfield sagði að kenna þurfi börnum að skilja að síður hvetji þau til þess að smella á annan leik eða myndband tengt því sem þau hafi verið að ljúka við að spila eða horfa á. Hún hefur reynt að fá Facebook til þess að gera það auðveldara fyrir börn að tilkynna um hluti sem þau hafi áhyggjur af eða slökkva á tilteknum atriðum. 

Hún gagnrýnir einnig nýjung á Snapchat sem kallast Snapstreak, sem hún segir að hvetji börn til þess að auka netnotkun sína. Notendur fá svokallað „streak“ þegar þau deila myndum þrjá daga í röð. 

Longfield segir að það sé ekki gagnlegt að setja ósveigjanleg tímamörk á skjátíma barna. Hún kynnir herferðina um „fimm á dag“ sem byggist á gamalli herferð um fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag og byggist einnig á ráðleggingum um geðorðin fimm - sem Íslendingar þekkja í ögn ítarlegri útfærslu sem „geðorðin tíu“. Herferðin hvetur til þess að börn - og fullorðnir - nýti tölvur og snjalltæki á uppbyggjandi hátt, meðal annars með því að leggja áherslu á sköpun og virkni. Þá er lögð áhersla á að ræða við börnin um tölvunotkun og leiðbeina þeim um hvernig tryggja megi að hún fari ekki fram úr hófi.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi