Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skjálftarnir orðnir fleiri en 400

16.12.2019 - 01:42
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Yfir 400 skjálftar hafa nú mælst í jarðskjálftahrinunni sem hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Þar af eru níu á bilinu 3,0 til 3,7 að stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu jarðvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Þar segir að skjálftarnir séu aðallega austast í Fagradalsfjalli en skjálftar hafi þó líka mælst vestast í fjallinu.

Hrinan hófst um tíu mínútur yfir sjö að morgni sunnudags og nánast á slaginu átta varð skjálfti sem mældist 3,5. Heldur dró úr hrinunni upp úr hádegi en virkni fór svo að aukast á ný seint á áttunda tímanum í kvöld.

Þeir tveir stærstu, 3,7 og 3,6 að stærð, urðu rétt fyrir átta og sá þriðji, 3,4 að stærð, um 20 mínútum síðar. Tveir skjálftar af stærðinni 3,0 fylgdu svo hart á hæla þeirra, og þrír til viðbótar, um og rétt yfir 3 að stærð, hafa orðið eftir klukkan 23, sá nýjasti rétt eftir klukkan eitt í nótt.

Hrinan heldur áfram og Veðurstofunni hafa borist allmargar tilkynningar frá fólki sem hefur orðið vart við stærri skjálftana. Má gera ráð fyrir að þeir hafi fundist vel í nærliggjandi byggð, svo sem í Grindavík og Keflavík. Þá hafa þeir öflugustu einnig fundist greinilega á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel á Akranesi. 

Jarðskjálftar eru algengir á þessu svæði. 2017 urðu þarna um 600 skjálftar dagana 25. - 27. júlí, þar sem stærsti skjálftinn mældist 4,0.