Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skjálftarnir komu á óvart

19.09.2016 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurdæling vatns í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar getur flýtt fyrir skjálftum á svæðinu en auka ekki líkur á því að skjálftar verði stærri en ella. Orkuveitan segir að skjálftarnir þrír í gærkvöld hafi komið á óvart þar sem dæling hafi verið með óbreyttu sniði um hríð.

Jarðskjálftahrinan sem hófst á Hellisheiði á föstudagskvöld er á niðurdælingarsvæði Orkuveitu Reykjavíkur við Húsmúla. Sérfræðingar Orkuveitunnar og Veðurstofunnar eru nú að fara yfir hugsanlegar orsakir skjálftanna þriggja í gærkvöld. Þeir hafi komið á óvart og til greina komi að endurskoða verklag.  

Skjálftinn fannst víða

Stærstu skjálftarnir urðu í gærkvöld. Þeir voru þrír, sá stærsti 3,6 að stærð varð klukkan hálf ellefu rúmlega tvo kílómetra norðnorðvestan við Hellisheiðarvirkjun. Skjálftinn fannst í Hveragerði, Mosfellsbæ, Kópavogi og Hellu.  Í yfirlýsingu frá Orku náttúrunnar segir að allt frá árinu 2006, hafi vinnsluvatni frá virkjuninni verið dælt niður í jarðhitageyminn. Nú sé dælt niður á tveimur stöðum; við Gráuhnúka og við Húsmúla. Magnið sem dælt er niður nemur 700-800 lítrum á sekúndu. Árið 2011 urðu svokallaðir gikkskjálftar við Húsmúla þar sem vatnið sem dælt var niður virkaði eins og smurning og það losnaði um spennu sem var í jarðlögunum. Í kjölfarið var ákveðið að forðast snöggar breytingar á dælingunni.

Endurskoða hugsanlega verklag

Marta Rós Karlsdóttir forstöðumaður auðlinda hjá Orku náttúrunnar segr skjálftarnir í gærkvöld hafi komið á óvart.  „Við höfum verið með stöðuga niðurdælingu í lengri tíma þannig að þetta eru ekki hreyfingar sem við þekkjum.  Við höfum haldið okkur við þetta verklag af því að við vitum að ef við gerum stórar breytingar þá höfum við séð aukna skjálftavirkni í kjölfarið, en ekki svona stóra skjálfta. Nú höfum við ekki gert neinar breytingar þannig að þetta kemur okkur á óvart" segir Marta Rós.  Hún segir skjálftana í gærkvöld gefa tilefni til þess að endurskoða verklagið.  „Það er það sem við erum að skoða núna með þessum greiningum  í dag á skjálftavirkninni um helgina. Ef við þurfum að breyta einhverju í okkar verklagi og þá að sjálfsögðu gerum við það". 

Yfirlýsing Orku náttúrunnar í heild:

Vegna skjálftahrinu við Húsmúla
Sérfræðingar Orku náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur eru að fara yfir skjálftavirkni nú um helgina við Húsmúla á Hengilssvæðinu með starfssystkinum á Veðurstofunni og í vísindasamfélaginu. Markmiðið er að finna út hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun. Vitað er að breytingar á tilhögun niðurdælingar, sem staðið hefur við Húsmúla frá árinu 2011, geta orsakað svokallaða gikkskjálfta. Þar sem engar breytingar á niðurdælingunni hafa verið gerðar upp á síðkastið kallar hrinan á ítarlega greiningu allra gagna. Sú greining stendur yfir.
Um niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun
Allt frá því Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun, árið 2006, hefur vinnsluvatni frá virkjuninni verið dælt niður í jarðhitageyminn. Nú er dælt niður á tveimur stöðum; við Gráuhnúka og við Húsmúla. Magnið sem dælt er niður nemur 700-800 lítrum á sekúndu. Árið 2011 urðu svokallaðir gikkskjálftar við Húsmúla þar sem vatnið sem dælt var niður virkaði eins og smurning og það losnaði um spennu sem var í jarðlögunum. Í kjölfarið var tekið upp verklag með tveimur meginþáttum:
•    Að forðast snöggar breytingar á tilhögun niðurdælingar.
•    Að láta almenning og yfirvöld vita fyrirfram þegar gera þyrfti breytingar á niðurdælingunni.
Þessu verklagi hefur verið fylgt síðan.
Tvíþættur tilgangur niðurdælingar
Í nýrri jarðgufuvirkjunum er almennt gerð sú krafa að vinnsluvatninu sé skilað niður í jarðhitageyminn. Niðurdæling vinnsluvatns frá jarðgufuvirkjunum hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar dregur hún úr umhverfisáhrifum á yfirborði með því að vinnsluvatnið er ekki losað þar. Hins vegar eflir niðurdælingin sjálfbærni nýtingar jarðhitaauðlindarinnar með því að vinnsluvatni er skilað aftur niður í jarðlög þar sem það hitnar að nýju. Þetta spornar gegn lækkun á vatnsþrýstingi í jarðhitageyminum.
Getur virkað sem smurning
Við borun á jarðhitasvæðum – hvort sem það er vegna gufuöflunar eða niðurdælingar – er leitast við að finna lekar jarðmyndanir á borð við sprungur og misgengi. Sé spenna í þeim sprungum sem dælt er niður í getur vatnið virkað eins og smurning þannig að spennan losnar með skjálftum í nánasta umhverfi við niðurdælinguna. Slíkir skjálftar eru kallaðir gikkskjálftar og eru þeir alla jafna tiltölulega smáir, það smáir að þeir finnast ekki og mælast þeir helst þegar meiriháttar breytingar verða á niðurdælingunni. Árið 2011 fundust slíkir skjálftar þó í byggð og í kjölfarið var þróað verklag við niðurdælinguna sem fylgt hefur verið síðan.
Tilkynningar til almennings
Hluti verklagsins er að senda almenningi upplýsingar þegar breyting verður á niðurdælingunni og vísindamenn telja tímabundið auknar líkur á skjálfta sem finnst í byggð. Orka náttúrunnar, sem á og rekur jarðgufuvirkjanirnar á Hengilssvæðinu, hefur nokkrum sinnum á síðustu misserum sent slíkar tilkynningar til almennings og viðbragðsaðila.