Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skjálftahrinu í Skjaldbreið að mestu lokið

11.12.2017 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Jarðskjálftahrinu í Skjaldbreið er að mestu lokið. Stöku skjálftar voru í nótt en þeir voru ekki margir. Yfir hundrað skjálftar hafa mælst síðan að kvöldi 9. desember. Fjórir skjálftanna voru yfir 3 að stærð og sá stærsti var 3,8. Sá mældist í gær, 10. desember klukkan 8:48.

Stærstu skjálftarnir fundust í uppsveitum Árnessýslu, Vesturbæ Reykjavíkur, á Kjalarnesi og í Borgarfirði. Jarðskjálftahrinan varð í vestara gosbelti Skjaldbreiðs. Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er ekkert sem bendir til kvikuhreyfinga. Hann segir skjálftahrinur aðgengar á þessum slóðum. „Það er þó svolítið óvenjulegt að fá svo stóra skjálfta þarna sem finnast líka í byggð,“ segir Einar. Hrinan nú virðist stafa af flekahreyfingum. Ekki hefur mælst jafn stór skjálfti þarna síðan árið 1992.