Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Skítt að fá ekki að bjarga mér“

03.10.2019 - 19:54
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Talsverður munur er á ellilífeyristekjum kvenna og karla. Eldri konur eru sviknar og þeim refsað fyrir að vera heimavinnandi, segir ein þeirra. Frítekjumark komi í veg fyrir að hún geti bjargað sér í neyð.

Á borgarafundi RÚV um málefni eldri borgara fyrr í vikunni kom fram að 9 þúsund ellilífeyrisþegar glími við alvarlega fátækt. „Mjög stór hópur af fátækasta hópnum eru konur. Þær hafa margar hverjar afskaplega lélegan lífeyrissjóð. Það eru göt í þeirra starfsaldri,“ sagði Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi formaður öldungaráðs Reykjavíkur í þættinum.

Ásdís Skúladóttir, 76 ára Vesturbæingur og félagi í Gráa hernum segir að margar eldri konur finni fyrir fjárhagserfiðleikum. „Við erum svolítið sviknar. Þegar lífeyrissjóðirnir verða lögbundnir um 1970 þá er um helmingur kvenna heimavinnandi,“ segir hún.

Lífeyristekjurnar endurspegla atvinnuþátttöku kvenna á árum áður. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni fá karlar að meðaltali 20-30 þúsund krónum meira en konur á mánuði í lífeyri. „Það væri hægt að segja að við værum verðlaunaðar á efri árum með lágum lífeyri eftir allt það starf sem við höfum unnið. Þ.e.a.s. tvöfalt álag - fulla vinnu og uppeldi barna,“ segir Ásdís jafnframt.

Tekjuskerðingar og frítekjumark hafi áhrif á hag eldri borgara. „Það þarf að leyfa þeim kynslóðum sem stofnuðu til lífeyrissjóða að lifa áfram áður en við förum að skerða. Mér finnst skítt að fá ekki að bjarga mér. Að það sé sett stopp á upphæðina sem ég má vinna mér inn. Að manni sé í rauninni hegnt fyrir að vinna.“