„Skítadjobb“ að vera uppljóstrari

Mynd: Kveikur / RÚV

„Skítadjobb“ að vera uppljóstrari

16.11.2019 - 12:24

Höfundar

Afhverju var Helgi Seljan í úlpu í Namibíu? Hvað er ólíkt með hefðbundnum viðtölum og því sem Aðalsteinn átti við Þorstein Má eða Helgi við sjávarútvegsráðherrann? Höfðu blaðamennirnir áhyggjur af því að baka sér lagaleg vandræði með því að fjalla um Samherjaskjölin? Þessum spurningum og fleirum til fæst svarað í hlaðvarpi Kveiks þar fjallað er um gerð hvers þáttar fyrir sig.

Katrín Ásmundsdóttir, umsjónarmaður hlaðvarps Kveiks var gestur Lestarinnar á Rás 1 á fimmtudag. Hún ræddi hlaðvarpsgerðina og þá sérstaklega nýjustu útgáfuna sem leiðir hlustendur á bakvið tjöldin í umfangsmestu rannsóknarblaðamennsku ársins, með viðtölum við blaðamennina Helga Seljan og Aðalstein Kjartansson sem og pródúsentinn Stefán Aðalstein Drengsson. Katrín segir hlaðvarpið Kveik tækifæri til þess að kafa dýpra í umfjöllun vikunnar hversju sinni og á annan máta. Þá segir hún að á síðsannleikstímum þar sem ákveðinn falsfréttaótti sé fyrirferðamikill sé gagnsæi mikilvægt. 

„Manni líður aðeins eins og [fólk] beri aðeins minna traust til fjölmiðla jafnvel. Þá held ég að það sé gott að gefa og veita smá innsýni inní hvernig svona umfjöllun verður til.“ 

Kom ekki til greina að hætta við

Í innslagi Lestarinnar, sem hlýða má á í spilaranum hér að ofan, má meðal annars heyra brot út hlaðvarpinu þar sem Helgi, Aðalsteinn og Stefán ræða hvort komið hafi til greina að falla frá umfjölluninni. Þeir svara því neitandi.

„Eitthvað pönk á okkur getur verið leiðinlegt og óþægilegt fyrir okkur en það bara bliknar í samanburði,” segir Aðalsteinn og Stefán grípur orðið. „Þegar þú ert með svona efni í höndunum, þú vilt alltaf bara réttlætið fram og þá stoppar mann ekkert.“

Helgi segir ömurlegt að vera fyrir rangri sök og þurfa að þola níð eða tímabundin óþægindi. Hinsvegar megi ekki gleyma því að einn maður hafi fórnað framtíð sinni fyrir málstaðinn og gæti mögulega átt yfir höfði sér fangelsisvist. „Miðað við hvernig Ísland virkar gæti hann orðið eini maðurinn sem þarf að fara í fangelsi og það er Jóhannes Stefánsson,“ segir Helgi. „Það að vera uppljóstrari er held ég eitthvað mesta skítadjobb sem þú getur tekið að þér.“

Hlaðvarp Kveiks, sem heitir einfaldlega Kveikur er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Þá er hlaðvarpið, auk ítarefnis úr þáttunum aðgengilegt á ruv.is/kveikur.

Tengdar fréttir

Innlent

Samherjaskjölin á 3 mínútum

Mynd með færslu
Innlent

Kveikur: Samherjaskjölin