Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skírteini íslensks nasista sýnt í fyrsta sinn

23.03.2019 - 20:05
Mynd:  / 
Flokksskírteini manns sem var í hreyfingu íslenskra nasista á árunum fyrir seinni heimsstyrjöld verður til sýnis um helgina. Slíkt skírteini hefur aldrei verið sýnt opinberlega hér á landi.

Myntsafnarafélag Íslands var stofnað árið 1969 og fagnar því 50 ára afmæli sínu á þessu ári. Að því tilefni var opnuð sérstaklega vegleg safnarasýning í húsi Ferðafélags Íslands í Mörkinni í gær sem stendur um helgina. Á sýningunni má sjá marga dýrgripi, en andvirði þeirra nemur hátt í tvöhundruð milljónum króna. Einn gripurinn, sem er frá árinu 1934, vekur þó sérstaka athygli.

„Þetta er flokksskírteini Gísla Guðmundssonar frá Þjóðernisflokki Íslands,“ segir Gísli Geir Harðarson, sýningarstjóri. „Hann var skipasmíðanemi og gengur í flokkinn þegar hann var 19 ára og er einn af burðarásunum í flokknum seinna meir. Hann er til dæmis í háleynilegu ráði flokksins sem starfar alveg til stríðsloka.“

Íslenskir þjóðernissinnar voru fámennur en vel sýninlegur hópur sem var nokkuð hallur undir sjónarmið Adolfs Hitler. Flokkurinn bauð fram í Reykjavík en hlaut ekki brautargengi, og lagðist að mestu niður þegar Bretar hertóku landið og ljóst var orðið að Þjóðverjar færu halloka í stríðinu.

„Það voru 200 til 300 meðlimir en þetta er seinnilega eina skírteinið sem hefur varðveist. Þannig að þetta er sögulegur gripur,“ segir Gísli Geir.

Hakakross og skjaldarmerki

Svona skírteini hefur aldrei verið sýnt opinberlega hérlendis svo vitað sé, enda forðuðust þeir sem voru í slagtogi við nasista á þessum tíma að það væri á vitorði almennings. Vitað er að menn eyðilögðu flokksskírteini sín og sama máli gegnir um erfingja þeirra þegar slík skírteini fundust í dánarbúum. Skírteinið er í eigu safnara sem lánaði það sérstaklega fyrir þessa sýningu. Auk þess verður afar sérstök medalía til sýnis.

„Hún kemur úr eigu Gísla og er væntanlega einhvers konar heiðursmerki. Það sem er óvenjulegt við hana er að það er búið að grafa hakakrossinn á framhliðina, og aftan á er búið að taka gamla konungsríkisskjaldarmerkið okkar og í staðinn fyrir kórónu Danakonungs er kominn hakakross í staðinn.“

Er það ekki svolítið gróft?

„Þetta er klárlega hönnunarstuldur,“ segir Gísli Geir í léttum dúr.

Sýningin stendur aðeins um helgina, en aðgangur að henni er ókeypis.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV