Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skipulagður vasaþjófnaður við vinsæla ferðamannastaði

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Nokkuð algengt er að lögreglunni á Suðurlandi berist tilkynningar um vasaþjófnað við Geysi og Gullfoss. Grunur leikur á um að þjófarnir starfi nokkrir saman og að verknaðurinn sé skipulagður. 

„Við erum að sjá þetta gerast og höfum fengið tilkynningar frá fólki sem hefur verið á þessum fjölförnu ferðamannastöðum í Árnessýslu. Við höfum verið að fylgjast með þessu og reyna að ná utan um þetta en það hefur ekki gengið hingað til,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Fólk rænt á meðan það tekur myndir

Skipulagður vasaþjófnaður hefur lítið sem ekkert þekkst hér á landi. Oddur segir að fyrstu tilkynningarnar hafi borist fyrir rúmu ári. Síðan hafi þær verið reglulegar. Þjófnaðurinn er í einhverjum tilfellum eins og þekkist víða í Evrópu, þar sem fórnarlömbin eru trufluð með einum eða öðrum hætti. Þannig er fólk til dæmis rænt þegar það er upptekið við að taka myndir.

Tveir til þrír saman við verknaðinn

Oddur segir að þjófarnir losi sig fljótt við þýfið og erfitt sé að hafa hendur í hári þeirra. Þó sé sannarlega verið að reyna að hafa eftirlit með þessu.

„Það er grunur um að þeir séu tveir til þrír saman og þetta er líklega skipulagt,“ segir Oddur.

Lögreglan vill beina því til fólks að hafa varann á og gæta að eigum sínum á fjölförnum stöðum. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV