Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Skiptir miklu máli að fá góða makrílvertíð“

08.07.2019 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Makrílvertíðin er hafin og fyrstu skipin farin til veiða. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að það skipti miklu máli að geta nú hafið makrílveiðar eftir loðnubrest og þau áföll sem fylgdu í kjölfarið. Og hann segir afar mikilvægt að Ísland komist að samningaborðinu um úthlutun makrílkvóta í Norður-Atlantshafi.

Fyrsta makrílnum á þessari vertíð var landað í Vestmannaeyjum í byrjun síðustu viku þegar Huginn VE kom þangað með 220 tonn. Eftir því sem næst verður komist eru fjögur skip byrjuð á makrílveiðum og fleiri bætast við í næstu viku.

Óvenjugóður makríll miðað við árstíma   

Benoný Þórisson, framleiðslustjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, segir fyrirtækið búið að taka á móti sjö makrílförmum og sá áttundi komi í kvöld. Allt hráefnið hafi farið í frystingu og makríllinn sé óvenjugóður miðað við árstíma. Veiðin sé að mestu suðaustur af Vestmannaeyjum eins og er, makríllinn sé dreifður og engin mokveiði.  

Góð makrílvertíð skipti gríðarlega miklu máli

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir afar gott að uppsjávarflotinn fái nú þetta verkefni. „Núna er þetta alltsaman að fara af stað sem er náttúrulega mjög gleðilegt, eftir loðnubrest, að makrílvertíðin sé að hefjast. Það skiptir gríðarlega miklu máli að núna komi góð og öflug makrílvertíð, eftir að loðnubresturinn kom svona hart niður á okkur núna í vetur. Þetta skiptir máli bæði fyrir útgerðirnar, samfélögin og síðan þjóðarbúið.“

Strandveiðiþjóðirnar verði að fara að semja um kvóta

Samkvæmt reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, um veiðar á makríl, er hlutur Íslands á þessarri vertíð 140 þúsund tonn. Þetta er einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda, en Íslendingar eiga ekki aðild að samningum um skiptingu makrílkvótans í Norður-Atlantshafi. „Miðað við þá kröfu sem Ísland hefur sett upp varðandi sína hlutdeild í makríl, þá hefur Ísland bara tekið sér þá ákveðna prósentu af útgefnum kvóta Alþjóða hafrannsóknarráðsins,“ segir Jens Garðar. „Íslensk stjórnvöld hafa bara haldið sig við þá stefnu, en auðvitað vonast ég til þess á næstu árum, hvort sem það er makríll eða kolmunni eða norsk-íslensk síld, að þá verða strandveiðiþjóðirnar að fara að koma sér saman um það að semja um skiptingu þessa kvóta. Þannig að það komist beri stjórn á þetta.“

„Við eigum fulla kröfu á okkar hlutdeild í makrílnum“

Og Jens Garðar telur erfitt að segja til um það á þessu stigi hvort Íslendingar fengju meiri makrílkvóta í samningum en þeir taka sér í dag. Það sé óljóst hvort samið verði sérstaklega um einn af þessum fiskistofnum í einu, eða þeir allir teknir saman. „En hinsvegar er það alveg á hreinu að krafa Íslendinga er skýr, í öllum þessum stofnum. Og það er nú þannig að margar þjóðir hafa litið á það að krafa okkar varðandi í makrílinn sé kannski mikil, en við höfum bara sýnt það og sannað að makríllinn er kominn til að vera við Ísland og þess vegna eigum við fulla kröfu á okkar hlutdeild í makrílnum.