Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skiptir máli að skoða bæði íbúðaverð og samgöngukostnað

17.11.2019 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarstjóri fagnar þeim fjölda umsagna sem hafa borist um nýtt leiðarkerfi strætó. Alls bárust um 850 ábendingar við nýja leiðakerfið, sem verður byggt upp samhliða fyrsta áfanga borgarlínu.

Nýja leiðakerfið er nú í samráðsferli, en stefnt er að því að stór hluti þess verði að veruleika samhliða fyrsta áfanga borgarlínu árið 2023. Strætó fer nú yfir ábendingarnar sem bárust, en óánægjuraddir hafa heyrst varðandi nýja leiðakerfið. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur gagnrýninni fagnandi.

„Mér finnst þetta alveg dásamlegt. Bæði það að strætó vinni svona í miklu samráði, en þessi fjöldi umsagna endurspeglar líka hvað strætó skiptir miklu máli fyrir marga. Þegar verið er að gera breytingar sem horfa til framtíðar þá er eðlilegt að það komi alls konar ábendingar,“ segir Dagur.

Ríflega fjögur þúsund íbúðir eru nú í byggingu í Reykjavík og rúmlega 8.600 til viðbótar eru í formlegu skipulagsferli. Dagur segir að almenningssamgöngur séu mikilvægar fyrir þróun borgarinnar.

„Ég held það skipti mjög miklu máli þegar fólk er að velta þessu fyrir sér, að skoða bæði íbúðaverðið og samgöngukostnaðinn. Því vel staðsettar íbúðir nálægt almenningssamgöngum gera það að verkum að þú kemst af með einn bíl og jafnvel engan. Þú þarft ekki að borga 5-7 milljónir fyrir stæðið þitt í bílakjallaranum. Þú getur sparað þér það. Það munar alveg gríðarlega mikið um það í heimilisbókahaldinu.“