Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skiptar skoðanir um gínur í yfirstærð

12.06.2019 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Nike
Skiptar skoðanir eru um ákvörðun Nike að nota gínur í yfirstærð í verslunum sínum. Þá hafa sumir haldið því fram að gínurnar stuðli að offitu og verði til þess að fólki yfirsjáist mögulegar hættur.

Formaður Samtaka um líkamsvirðingu segir öfugsnúið að sama fólkið og segist hafa áhyggjur af heilsufari feitra og sé stöðugt með yfirlýsingar um að það þurfi að fara að drífa sig í ræktina, sé nú brjálað að þau hafi fatnað til að gera einmitt það.

Samkvæmt frétt CNN, er tilgangur herferðarinnar að auka inngildingu og veita kvenkyns íþróttamönnum innblástur. Félagið hefur einnig hafið notkun á fötluðum gínum.

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, segir þetta frábært framtak og undirstrikar mikilvægi þess að fólk af öllum stærðum og gerðum hafi aðgengi að íþróttafatnaði sem og öðrum fatnaði. Nike býður nú upp á föt að stærðum 3XL og segir Tara það vera skref í rétta átt.

„Eftir því sem líkamar á jaðrinum verða sýnilegri innan samfélagsins, hvort sem þessir líkamar eru til dæmis feitir, fatlaðir eða hinsegin, því meira samþykki njóta þeir. Það leiðir til sterkari sjálfs- og líkamsmyndar og er til þess fallið að draga úr fordómum og mismunun. Meiri fjölbreytileiki er alltaf styrkur,“ segir Tara.

Hún tekur fram að sterk sjálfs- og  líkamsímynd hafi mikinn heilsufarslegan ávinning og hvetji til mun betri heilsuvenja en útskúfun og jaðarsetning.

Tara segir að ekki megi gleyma þeim fjárhagslega ávinningi fyrir fyrirtæki að selja fatnað fyrir allar líkamsgerðir. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er þetta markaður að andvirði um 20 milljarða bandaríkjadala eða um 2.479 milljarða íslenskra króna. Bent er á að Nike er ekki eina félagið til að reyna að ná til þessa markaðar, en fjöldi fyrirtækja selur nú föt í stærri stærðum.