Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Skiptar skoðanir um fjárhagsáætlun

15.11.2011 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Jákvæður viðsnúningur hefur átt sér stað í fjármálum Reykjavíkurborgar að sögn borgarstjóra sem kynnti fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, í dag. Oddviti sjálfstæðismanna í borginni hefði viljað sjá útsvar lækka í ljósi bættrar stöðu borgarinnar.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagðist fullur gleði og stolts þegar hann kynnti fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár í dag. Síðustu þrjú ár hefur verið krafist hagræðingar hjá flestum sviðum borgarinnar en nú hefur ákveðnu jafnvægi verið náð. Snúið verður frá braut niðurskurðar en áfram gerð krafa um aðhald í starfsemi borgarinnar.   „Ég hef ekkert farið að gráta núna við gerð þessarar fjárhagsáætlunar enda er þetta bara allt annað landslag sem er í þessari áætlun og það skiptir kannski mestu máli að við höfum komið böndum um Orkuveitu Reykjavíkur“ segir Jón Gnarr.

Áætlaður afgangur af heildarrekstri Reykjavíkurborgar á næsta ári eru 3,6 milljarðar króna. Það er talsvert betri niðurstaða en í ár en áætlaður halli ársins 2011 nemur rúmum 5 milljörðum króna. Þrátt fyrir þennan jákvæða viðsnúning segir Jón borgarbúa ekki eiga von á skattalækkunum eða breytingum á gjaldskrám.  Hann segir borgina ekki hafa tækifæri til þess að svo stöddu en það sé til sífelldrar endurskoðunar.

Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, segir fjárhagsáætlunina ákveðin vonbrigði nú þegar ákveðið svigrúm sé til nýrra verkefna og skapandi hugsunar í borginni. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins segir áætlunina enn eitt dæmið um hvernig kerfið þenst út á kostnað fólksins sem ekki sé aflögufært. „Allir skattar er komnir í topp og gjaldskrár orðnar mjög háar og við erum meira að segja að taka mun meiri skatttekjur inn en við þurfum á að halda.“ Hún segir fjárhagsáætlunina dæmi um hvernig ekki eigi að vinna hlutina.

  >>