Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skipta þakkarræður á Óskarnum einhverju máli?

09.02.2020 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík
Óskarsverðlaunin verða veitt í kvöld, í 92. sinn. Það er ekki ósennilegt að stór hluti þjóðarinnar verði óútsofinn í vinnu og skóla á mánudag, þau sem vilja fylgjast með því hvort Hildur Guðnadóttir bæti ekki síðustu og stærstu verðlaununum í ríkulega uppskeru sína síðastliðnar vikur og mánuði. En saga Óskarsins er löng, og þau eru mörg sem hafa sett mark sitt á hana með eftirminnilegum hætti.

Saga Óskarsverðlaunanna nær allt aftur til ársins 1929. Þá voru fimmtán listamönnum veitt verðlaun fyrir árangur á sviði kvikmynda við hátíðlega athöfn sem tók fimmtán mínútur. Og þar kom lítið á óvart því búið var að tilkynna um siguvegarana í blöðunum þremur mánuðum fyrr.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Styttan er gullsleginn riddari sem stendur á filmu með fimm hringjum sem hver og einn táknar lykilfög akademíunnar, leikara, handritshöfunda, leikstjóra, framleiðendur og tæknifólk. Sagan segir að mexíkóski leikarinn Emilio „El Indio“ Fernández hafi verið fyrirmynd riddarans, en öllu skiptari skoðanir eru um nafngiftina. Óskarinn hefur verið kallaður það frá árinu 1939, þegar verðlaunin voru um 10 ára. Hvort hann heitir Óskar í höfuðið á fyrsta eiginmanni leikkonunnar Bette Davis eða Óskari frænda Margaret Herrick, sem var ritari akademíunnar, skal ekkert fullyrt um hér. 

Þannig að sagan er löng, svo löng að hún er næstum farin að ganga í hringi. Renee Zellweger er í ár tilnefnd sem besta leikkonan í aðalhutverki fyrir að leika Judy Garland í kvikmyndinni Judy.

Garland vann aldrei Óskarsverðlaun sjálf, en komst einu sinni afar nálægt því. Árið 1954 var hún tilnefnd fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni A Star is Born. Þá átti hún ekki heimangengt á hátíðina, lá á sæng, nýbúin að fæða barn. Svo líklegt þótti að hún fengi verðlaunin að búið var að koma upp kvikmyndatökubúnaði við sjúkrarúmið hennar til að taka upp þakkarræðu hinnar nýbökuðu móður. Til þess kom þó ekki því Grace Kelly hirti gripinn. Vinni Zellweger um helgina gæti það verið smá uppreist æru fyrir Garland, sem lést reyndar árið 1969. 

„Takk mamma!“

Sagan Óskarsins er löng og eins og venjulega eru það ekki penu sigurvegararnir sem mæta til leiks og þakka vinum og vandamönnum fyrir aðstoðina sem standa upp úr, þegar litið er yfir söguna.

Það eru hin sem eru þúfurnar og vörðurnar á leiðinni, fólkið sem segir eitthvað, gerir eitthvað, sem vekur athygli. Skemmst er að minnast svanakjólsins sem Björk Guðmundsdóttir klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni 2001. Hann er enn reglulega rifjaður upp þegar legið er yfir því hver klæddist hverju á hátíðinni.

Óskarsverðlaunin geta verið pólitísk, og ef verðlaunin sjálf eða tilnefningarnar eru það ekki geta þau sem verðlaunin hljóta hverju sinni gert þau pólitísk. Eða allavega nýtt opna gluggann sinn, þetta nokkurra sekúndna tækifæri sem þau fá á sviðinu, áður en tónlistin brestur á, til að deila á menn og málefni. Setja mál á dagskrá. 

Það er einmitt það sem Jimmy Kimmel, kynnir hátíðarinnar árið 2018 hvatti sigurvegara kvöldsins til að gera.

Og það hafa þó nokkur gert. Umdeildir Bandaríkjaforsetar, jafnrétti, eða skortur á því, skotvopnalöggjöf, fordómar, hann er ágætlega langur listinn yfir pólitísk baráttumál sem sigurvegarar Óskarsverðlaunanna hafa gert að umtalsefni í þakkarræðum sínum í gegnum tíðina. 

Og það er ekki bara á sviðinu sem fólk hefur látið skoðanir sínar í ljós. Árið 1999 fékk grísk-bandaríski leikstjórinn og leikarinn Elia Kazan heiðursverðlaun akademíunnar. Þá sátu þónokkur úti í sal, með hendur í skauti og klöppuðu ekki fyrir verðlaunahafanum. Ástæðan var andkommúnískur vitnisburður hans gegn leikurum fyrir rannsóknarnefnd tæpri hálfri öld fyrr þegar McCarthyisminn stóð sem hæst. 

Guðfaðirinn sagði nei takk

Marlon Brando fékk Óskarsverðlaunin árið 1973 fyrir að leika Don Corleone í Guðföðurnum. Hann sendi leik- og baráttukonuna Sacheen Littlefeather í sinn stað á hátíðina til að afþakka verðlaunin og flytja þakkarræðuna, nema að í henni var tíunduð gagnrýni Brandos á lítillækkandi og fordómafulla framgöngu kvikmyndaiðnaðarins gegn frumbyggjum Bandaríkjanna. 

Brando útskýrði ákvörðun sína síðar í spjallþætti hjá Dick Cavett.

Fjórir reknir úr akademíunni

Annar umdeildur maður sem tók ekki á móti verðlaununum sínum er leikstjórinn Roman Polanski. Hann var tilnefndur og vann fyrir leikstjórn The Pianist árið 2002. Hann var ekki á staðnum því hann er í útlegð frá Bandaríkjunum eftir að hafa nauðgað þar stúlku undir lögaldri. Sama akademía og veitti honum verðlaunin 2002 ákvað árið 2018 að honum yrði vikið úr akademíunni vegna forsögunnar. 

Þeir eru reyndar fjórir sem hafa verið reknir úr akademíunni frá upphafi, þrír fyrir svipaðar sakir og Polanski. Fyrrum fyrirmyndarföðurnum Bill Cosby var vikið úr henni sem og framleiðandanum Harvey Weinstein, sem fleiri en eitt hundrað konur hafa síðan í metoo-byltingunni sakað um ofbeldi og áreitni. Þá er ótalinn Carmine Caridi sem var látinn taka akademíu-pokann sinn árið 2004 eftir að hann var sakaður um að dreifa eintökum af Óskarsverðlaunamyndum sem honum höfðu verið sendar til áhorfs. 

Þó að mörgum finnist akademían svifasein þegar samfélagsbreytingar eru annars vegar hafa þó einhver skref verið stigin, og umburðarlyndi gagnvart samfélagslega ósamþykktri hegðun sífellt minna. Þannig fór enginn kynnir fyrir útsendingunni í fyrra. Kevin Hart átti að sjá um það, en það var snarlega hætt við þau áform eftir að gömul tíst Harts voru dregin fram í dagsljósið. Þau þóttu andstyggileg í garð samkynhneigðra og Hart sagði sér ekki stætt að standa í brúnni með vel valið grín með þessar ásakanir í farteskinu. Og í ár líkt og í fyrra verður enginn kynnir. 

Svo hvítur Óskar

Að setja mál á dagskrá er afar gott og blessað, en áhrifin sem það hefur eru auðvitað mismikil. Árið 2015 spruttu upp miklar umræður á samfélagmiðlum og víðar undir myllumerkinu #OscarsSoWhite eða ótrúlega hvítur Óskar. Uppsprettan var sú staðreynd að þá, 2015, voru þau öll hvít á hörund, leikararnir og leikkonurnar 20 sem tilnefnd voru til verðlaunanna fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum. Og það sama hafði verið upp á teningnum árið áður. Þetta gerðist síðast árið 1998. 

Þetta var sem sé rætt fram og til baka, nú eru liðin fimm ár, og staðreyndin er að einungis ein af þeim tíu leikkonum sem tilnefndar í ár er ekki snjakahvít á hörund, en það er Cynthia Erivo. Heldur fölleitari er tíu manna hópur leikara sem tilnefndir eru fyrir leik í aðal- og aukahlutverkum í ár, en þeir eru allir hvítir.

Og fjölbreytt er hún kannski ekki heldur, aldursdreifing þeirra fimm karla sem tilefndir eru fyrir leik í aukahlutverki er í ár. Meðalaldurinn er 71 ár. Og þeir hafa allir unnið Óskarsverðlaun áður, enda kannast allir hlustendur líklega við fimmmenningana, Brad Pitt (56 ára), Tom Hanks (63 ára), Joe Pesci (76 ára), Al Pacino (79 ára) og Antony Hopkins (82 ára). Pitt er sá eini þeirra sem á ekki, enn allavega, Óskarsverðlaun fyrir leik. Hann á hins vegar Óskar fyrir framleiðslu á myndinni 12 Years a Slave. En það er önnur saga. 

Notaði sama smókinginn tvisvar

Leikarinn og Jókerinn Joaquin Phoenix nýtti sinn opna glugga á nýafstöðnum BAFTA-verðlaunum þegar hann sagði AÐ tilnefningar til jafn ófjölbreytts hóps sendu bara ein skilaboð, þið hin megið ekki koma með. 

Það er spurning hvort Phoenix verði með sams konar skilaboð vinni hann Óskar á sunnudaginn fyrir Jókerinn, eða einhver allt önnur. Önnur spurning, sem einnig felur í sér skilaboð til umheimsins, er sú hverju hann klæðist. Hann er nefnilega búinn að þræða verðlaunahátíðir síðustu mánaða íklæddur sama smókingnum úr smiðju Stellu McCartney. Já gott fólk, það þykir framúrskarandi umhverfisvæn nýtni hjá honum að nota sérsaumuðu jakkafötin sín oftar en einu sinni. 

Sú umræða er kannski ágætis dæmi um áhrifin sem pólitískur boðskapur í þakkarræðum hefur. Það að hvítt fólk í óumdeildri forréttindastöðu nýti smá af styrk kastljóssins til að taka upp hanskann fyrir menn og málefni þykir mörgum kannski heldur aumt, tilgangslaust og jafnvel skjóta skökku við. 

 

En það er þó líklega einnig ósanngjarnt að gagnrýna fólk fyrir að segja þó eða gera eitthvað til að vekja athygli á því sem betur má fara í heiminum. Það breytist líklega aldrei neitt ef þagað er um það. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV