Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skipstjórinn neitaði sök í Jökulsárlónsmáli

26.06.2017 - 11:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Skipstjóri hjólabáts, sem bakkaði á kanadíska fjölskyldu við Jökulsárlón fyrir tveimur árum með þeim afleiðingum að kona lést, neitaði sök þegar ákæran var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í morgun. Verjandi hans fékk frest til að leggja fram greinargerð og fer þinghald fram í haust. Fjölskyldan féll frá einkaréttakröfu sinni.

Skipstjórinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi en honum er gefið að sök að hafa bakkað hjólabát án nægilegrar aðgæslu þannig að hann lenti á konunni. Hún lést samstundis.

Fram kom í frétt RÚV í morgun að samkvæmt ákærunni gerði fjölskylda konunnar kröfu um að skipstjóranum, sem var 22 ára þegar slysið varð, yrði gert að greiða sér samtals um 43 milljónir.  Við þinghaldið í morgun féll fjölskyldan frá einkaréttakröfu sinni og barst dómstólnum tölvupóstur þess efnis í morgun.

Fram kom við þinghaldið að tryggingarfélag Jökulsárlóns ehf. hefði gert upp við ekkil konunnar. Fréttastofu er ekki kunnugt um hvað fólst í því samkomulagi.

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem fréttastofa greindi frá fyrir helgi, kom fram að skipstjórinn hefði ekki haft réttindi til að stýra bátnum. Þá hefði verið bakkmyndavél í bátnum en hún verið biluð um nokkurt skeið. Þá hefðu skipstjórinn og annar starfsmaður Jökulsárlóns ehf. ekki gengið úr skugga um hvort hættulaust væri að aka hjólabátnum aftur á bak.