Skipaði Árna Þór til að draga athygli frá Geir

29.11.2018 - 06:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, segist hafa skipað Árna Þór Sigurðsson, þá þingmann Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sem sendiherra um leið og Geir H. Haarde árið 2014, gagngert til að leiða athyglina og umræðuna frá skipun Geirs. Þá telji hann sig hafa gert Sjálfstæðisflokknum svo mikinn greiða með þessu að hann telji sig eiga annað eins inni hjá þeim, þegar hann þurfi á því að halda.

Þetta er á meðal þess sem heyra má á hljóðritunum af samræðum Gunnars Braga, þriggja flokkssystkina hans og tveggja þingmanna Miðflokksins, sem DV og Stundin hafa undir höndum. Samræðurnar fóru fram á bar í Reykjavík að kvöldi 20. nóvember síðastliðins.

Sigurður Ingi ósáttur

Þeir Árni Þór og Geir voru skipaðir sendiherrar árið 2014, þegar Gunnar Bragi var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugsonar. Samkvæmt frétt dv, sem unnin er upp úr hljóðrituninni, segir Gunnar Bragi að Sigurði Inga, þá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hafi ekki verið skemmt þegar hann ákvað að skipa Geir H. Haarde sendiherra í Washington, enda hafi Sigurður Ingi verið í hópi þerra sem ákærðu Geir fyrir vanrækslu í landsdómsmálinu sem svo er kallað.

Segist Gunnar hafa rætt skipun Geirs við alla flokka, enda séð að hann gæti ekki skipað Geir einan; það „yrði of þungur biti fyrir þingið og alla." Því hafi hann ákveðið að skipa Árna Þór í sendiherrastöðu um leið, en Árni Þór sat þá á þingi fyrir Vinstri-græn. „VG hefðu getað  orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð," segir Gunnar  samkvæmt uppskrift dv.is af hljóðrituninni.

Athyglin öll á Árna Þór

Einnig segir hann Geir hafa brugðist illa við skipa Árna Þórs í upphafi. Hann hafi hins vegar áttað sig á tilganginum síðar: „Athyglin fór öll á Árna Þór. Annars hefði Vinstri Græna liðið orðið brjálað," segir utanríkisráðherrann fyrrverandi, og bætir því við að Árni Þór hafi ekki verið annað en „senditík Steingríms [J. Sigfússonar]." Plottið var, segir Gunnar Bragi, „að Geir yrði í skjólinu hjá Árna og það virkaði ekki bara 100 prósent heldur 170 prósent því Árni fékk allan skítinn." Samkvæmt dv.is þakkaði Geir honum greiðann löngu síðar.

Gunnar „eigi inni“ hjá Sjálfstæðismönnum

Segist Gunnar Bragi jafnframt hafa látið að því liggja í samtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármálaráðherra, að honum þætti sanngjarnt að Sjálfstæðismenn „horfðu til svipaðra hluta" þegar hann þyrfti á því að halda. Á upptökunni má svo heyra Sigmund Davíð staðfesta sannleiksgildi frásagnar Gunnars af þessu atriði, segir í frétt dv.is. Segist hann hafa rætt málið við Bjarna. „Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi þetta,“ segir Sigmundur Davíð. „Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að Bjarni féllst á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.“