Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skipað að loka fjölda verksmiðja vegna mengunar

21.01.2020 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Dómstóll í Bangladess hefur fyrirskipað að 231 verksmiðju skuli lokað vegna mengunar í ánni Buriganga. Hún rennur um suðvesturhluta höfuðborgarinnar Dhaka og er orðin ein af menguðustu ám í heimi.

Fyrirtækin við Buriganga hleypa úrgangi út í ána og sama er að segja um fleiri ár sem renna gegnum borgina. Hingað til hafa stjórnvöld horft framhjá framferði stjórnenda og starfsfólks verksmiðjanna. Bangladess er orðið annar stærsti fataframleiðandi í heimi og strarfsemi fyrirtækjanna skiptir miklu fyrir þjóðarhag.

Fyrirtækin sem skipað hefur verið að loka sjá meðal annars um fatalitun, sútun og að framleiða gúmmí. Í dómnum er yfirvöldum skipað að hætta að dreifa til þeirra rafmagni, gasi og vatni.

Umhverfisverndarsinnar fagna dómsniðurstöðunni. Að mati sérfræðinga Mannréttindavaktarinnar, Human Rights Watch, dæla sútunarverksmiðjurnar 21 þúsund rúmmetrum af óhreinsuðum úrgangi í Buriganga á hverjum sólarhring. Í honum eru meðal annars króm og blý.

Þrátt fyrir að sútunarverksmiðjum hafi verið skipað að flytja frá Buriganga árið 2017 er þar fjöldi fyrirtækja án starfsleyfis og fer að engu leyti eftir lögum og reglum um mengunarvarnir. Í fyrra létu yfirvöld fjarlægja fjögur þúsund hús og kofa sem höfðu verið byggðir á bökkum fjögurra áa í Dhaka.

AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni umhverfissamtaka í Bangladess að viðleitni yfirvalda sé aðeins dropi í hafið. Að minnsta kosti 38 ár í landinu séu að deyja vegna óbeislaðrar mengunar og landníðslu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV