Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skipa á formenn nefnda eftir þingstyrk

Svandís Svavarsdóttir í þingsal Alþingis.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segir að samkvæmt þingskaparlögum beri að semja um formennsku í nefndum á grundvelli þingstyrks. Það þýði að jafnmargir formenn eigi að koma úr minnihluta og meirihluta. Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að örugglega verði skipað í nefndir á grundvelli þingskaparlaga.

Ekki samkvæmt þingskapalögum

Svandís Svavarsdóttir sagði í Vikulokunum á Rás eitt að í öllum miðlum töluðu Sjálfstæðismenn um að þeir eigi fimm formenn í nefndum. Hinir stjórnarflokkarnir eigi einn og skipti honum á milli sín og stjórnarandstaðan eigi upp á náð og miskunn tvo. „Þetta er einfaldlega ekki samkvæmt þingskaparlögum. Það ber að setjast yfir þetta á grundvelli kosninganna og niðurstaðna þeirra, sem eru nú einu sinni þannig að það er ekki einu sinni meirihluti kjósenda sem styður núverandi ríkisstjórn. Hún þarf því á að halda að tala við stjórnarandstöðuna á hverjum tíma til þess að gæta að þessu jafnvægi,“ segir Svandís.

Þingskaparlög verði virt

„Ef samkomulag næst ekki, þá er farið í það að kjósa í hverja nefnd fyrir sig inni í þingsal. En það er ekki komið að þeim tímapunkti og ég vænti þess að það komi ekki að þeim tímapunkti og að menn vilji virða þingskaparlög og setjast yfir niðurstöður kosninga samkvæmt því og skipta með sér formennsku á grundvelli laganna, en ekki á grundvelli gamaldags valdapólitíkur sem snýst um það að meirihlutinn fái eins mikið og honum þóknast,“ segir Svandís. 

Páll Magnússon brást við þessum orðum Svandísar með því að segja það yrði örugglega skipað í nefndir á grundvelli þingskaparlaga.
 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV