Skilin ein eftir fyrir mistök

Mynd með færslu
 Mynd:
Sextán ára stúlka með þroskaskerðingu var skilin ein eftir fyrir utan heimili sitt, vegna mistaka Ferðaþjónustu fatlaðra. Móðir stúlkunnar segir það heppni að hún hafi ekki staðið þarna bjargarlaus klukkustundum saman.

Inga Lovísa er 16 ára nemi í Borgarholtsskóla. Hún er að sögn móður sinnar með alvarlega þroskahömlun, er einhverf og þarf mikinn stuðning.

Eftir skóla og dagvistun í gær átti hún að fara í tveggja daga hvíldarinnlögn í Eikjuvogi, með ferðaþjónustu fatlaðra á vegum Strætó. Þangað var henni hins vegar aldrei ekið, heldur heim, en þar var enginn. „Nei, hún fór bara heim og samkvæmt mínum upplýsingum var hún komin heim klukkan átján mínútur yfir fimm og ég var kominn heim klukkan fimm mínútur í sex og þá var hún búin að standa þarna í tæpar fjörutíu mínútur í myrkrinu og engin útiljós og ekkert neitt og það fór ekki fram hjá neinum að það var enginn heima,“ segir Ólöf Sigurðardóttir, móðir Ingu Lovísu. 

„Mér var mjög brugðið og fyrstu hennar viðbrögð, hún grét nú ekki þegar ég kom að henni en um leið og ég fór út úr bílnum þá hljóp hún að mér og fór að gráta,“ segir Ólöf.

Þar sem Inga Lovísa átti að vera í skammtímavistuninni ætlaði móðir hennar að vera hjá foreldrum sínum og koma heim um klukkan tíu um kvöldið. Hún hætti hins vegar við það, og fór fyrr heim. „Ég ætla ekki að hugsa þá hugsun til enda hefði ég komið heim klukkan níu eða tíu um kvöldið og hún búin að standa þarna fyrir utan húsið allan tímann.“

Inga Lovísa er mjög viðkvæm fyrir breytingum á daglegum venjum og þar sem hún var komin heim tók hún því illa þegar móðir hennar ók henni í skammtímavistunina. „Og það tók mig tæpa tvo klukkutíma að róa hana niður, ég held að við höfum verið fjögur starfsmenn og krakkar úr Eikjuvogi sem töluðum hana til að fara inn í Eikjuvog aftur. Þar af leiðandi verð ég að viðurkenna fyrir framan sjónvarp að ég keyrði í burtu hágrátandi yfir því að horfa á hana niðurbrotna.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi