Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skilgreinir sig ekki sem stjórnmálamann

29.11.2019 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Bryndís Hlöðversdóttir telur reynslu sína úr stjórnmálum ekki þvælast fyrir þegar hún tekur við embætti ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins um áramótin. Hún sat á þingi í tíu ár, til ársins 2005, en hætti þá afskiptum af pólitík.

„Ég skilgreini mig alls ekki sem stjórnmálamann. Ef ég horfi yfir minn feril þá er það minnstur hluti af mínum starfsferli,“ sagði Bryndís í viðtali í Morgunútgáfunni á Rás 1 í morgun. Reynslan úr stjórnmálum hafi hins vegar nýst henni vel. „Maður kynnist hlutum mjög vel, maður kynnist stjórnkerfinu mjög vel. Stjórnskipunarrétturinn hefur alltaf verið mitt uppáhaldsfag í lögfræðinni. Þetta hefur alltaf verið mitt uppáhaldssvið og geti bara verið gott að hafa séð það frá annarri hlið. Auðvitað er það bara þannig með stjórnmálin eins og annað, veldur hvað á heldur.“

Bryndís hefur gegnt embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2015. Þar hefur verið nóg um að vera undanfarið og mörg mál á borði embættisins eins og stendur. Blaðamannafélag Íslands á í hörðum kjaradeildum við Samtök atvinnulífsins þessa stundina. Starfsmenn í Blaðamannafélaginu eru í tólf tíma verkfalli í dag frá klukkan tíu. Eins eru mál flestra stéttarfélaga undir BSRB á borði ríkissáttasemjara og málefni flugstétta. Bryndís sagði aðra hópa nýta húsakynni ríkissáttasemjara fyrir fundi, þar á meðal BHM og hjúkrunarfræðinga.

Þegar samningaviðræður koma á borð ríkissáttasemjara geta loturnar orðið langar og strangar. Þegar lífskjarasamningarnir svonefndu voru í pípunum taldist starfsmönnum embættisins til að fundir hafi staðið í um 500 stundir á sex eða sjö vikum. Þá voru ótaldir klukkutímarnir sem fóru í undirbúning funda og annað þeim tilheyrandi. Á milli samningalota geta komið löng hlé. Bryndís sagðist hafa notað þau til þess að gera breytingar á embættinu. „Ég byrjaði á því þegar ég byrjað á þessu starfi að hugsa hvernig getum við bætt þjónustu okkar. Getum við ert hlutina eitthvað öðruvísi? Getum við nýtt fjármuni betur?“ sagði Bryndís og benti meðal annars á að húsnæðiskostnaður hafi verið hár hjá embættinu. „Við höfum gert breytingar sem stuðla að því að nýta húsnæðið betur og leigja út húsnæði sem var kannski illa nýtt.“ Eins hafi embættið boðið upp á námskeið fyrir aðila beggja vegna borðsins, bæði launagreiðendur og verkalýðsfélög.

Aðspurð um þá kosti sem ríkissáttasemjari þarf yfir að ráða sagði Bryndís traust vera mikilvægastan. „Fyrst og fremst traust þeirra sem hann er að vinna fyrir. Ríkissáttasemjari hefur í raun og veru lítil formleg völd, og í raun og veru engin. Ríkissáttasemjari getur lagt fram miðlunartillögu sem klippir samninganefndirnar úr sambandi og er lögð fyrir bakland þeirra beggja vegna borðs. Öll áhrif hans hanga hins vegar á því að hann hafi traust þeirra sem hann vinnur fyrir,“ sagði Bryndís.