Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skildu skóna eftir hjá forsætisráðherra

01.07.2018 - 20:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Tólf ljósmæður sem hættu störfum á Landspítalanum í gærkvöldi mótmæltu kjörum sínum með því að skilja vinnuskóna eftir á tröppum Stjórnaráðshússins. Ein þeirra, María Rebekka Þórisdóttir, segir að uppsagnirnar verði mjög erfiðar fyrir spítalann. Af þeim tólf sem sögðu upp unnu níu á sængurlegudeild. Þar með er fimmtungur ljósmæðra þar hættur.

Yfirljósmóðir á Landspítalanum segist ekki getað hugsað til þess það til enda hvernig ástandið verður þegar yfirvinnubann ljósmæðra gengur í gildi um miðjan mánuðinn. Eftir uppsagnir vantar fimmtung ljósmæðra á sængurlegudeild spítalans.

Uppsagnir tólf ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi á miðnætti í gærkvöldi. Þær létu í ljós óánægju sína með kaup sín og kjör með því að setja vinnuskó sína á tröppur stjórnarráðshússins í dag.

„Við erum bara að vona að ríkisstjórnin sjái alvarleikann í málinu. Við erum 12 ljósmæður sem hættum í dag og það er gríðarlega alvarleg staða fyrir spítalann,“ segir María Rebekka Þórisdóttir ljósmóðir.

„Það er alltaf verið að að höfða til samviskunnar hjá okkur kvenfólki og ég hef persónulega ekki mikið samviskubit yfir þessu. Mér finnst það vera stjórnvalda,“ segir María Egilsdóttir ljósmóðir.

Í dag lá einnig fyrir niðurstaða úr atkvæða greiðslu um verkfallsaðgerð sem felst í því að ljósmæður taki ekki að sér yfirvinnu.

77,6 prósent félaga í Ljósmæðrafélagi Íslands tóku þátt í atkvæðagreiðslunni. Af þeim sem svöruðu samþykktu 90% bannið, 6,3 prósent höfnuðu því og 3,7% skiluðu auðu. 

Ljósmæður eru sannfærðar um að yfirvinnubannið hafi áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana.

„Eins og staðan er í dag með allar þessar ljósmæður sem hafa sagt upp störfum og gengu út í gær, þá gerir það klárlega. Það er ekki af neinu að taka,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir.

Fréttastofa óskaði eftir viðtali við forstjóra Lanspítalans en fékk ekki. Þá veittu hvorki heilbrigðisráðherra né fjármálaráðherra viðtal. Þrjár ljósmæður eru hættar á fæðingarvakt Landspítalans.

„Þjónusta við konur sem eru að fæða er ekki skert en það verður skerðing á þjónustu á sængurlegudeildinni,“ segir Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild.

Þannig að eftir barnsburð þá eru konur styttra inni á spítalanum? „Já, við verðum að gera ráð fyrir því að þær þurfi að fara fyrr heim, hraustar konur það er að segja. Þá fara þær heim og fá þjónustu ljósmæðra sem koma til þeirra, bara eins og verið hefur,“ segir Hilda.

„Þessi aðgerðaáætlun eins og hún blasir við mér er ekki fullnægjandi. Ég hef ekki heyrt í neinni heimaþjónustuljósmóður sem hefur gefið það út að hún sé tilbúin til að taka við konum og börnum nýfæddum beint af spítala strax eftir fæðingu,“ segir Katrín Sif.

„Það var hugmynd um að fá aðstoð þeirra en við klárum þá okkar og sendum svo heim,“ segir Hilda.

Í dag gekk starfsemin nokkuð eðlilega á meðgöngu- og sængurlegudeild þrátt fyrir að 9 af 50 ljósmæðrum séu hættar störfum. „Þetta er búið að ganga alveg þokkalega í dag en strax á morgun erum við komin í mjög þunga stöðu. Við gerum hvað við getum til þess að fá fólk á vaktina,“ segir Hilda.

Er öryggi móður og barns alveg tryggt í þessari stöðu? „Við gerum allt sem við getum,“ segir Hilda.

Stjórnendur á Landspítalanum ætla að halda tvo stöðufundi á dag til að meta ástandið. 

„Mér finnst þetta hræðilegt, algjörlega hræðilegt að þetta skuli vera komið svona,“ segir Hilda.

Hvernig líst þér svo á stöðuna um miðjan júlí þegar væntanlega yfirvinnubannið tekur gildi?

„Ég get bara ekki hugsað svo langt núna. Það bara verður að vera búið að semja, það er ekkert annað í stöðunni,“ segir Hilda.