Skilaði bílprófinu og tekur strætó úr skáldabænum

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Roach - RÚV

Skilaði bílprófinu og tekur strætó úr skáldabænum

24.11.2019 - 13:30

Höfundar

„Ég þurfti að taka strætó sem fór 9:08,“ segir Guðrún Eva Mínervudóttir sem kom alla leiðina úr Hveragerði í viðtal í Morgunkaffið á laugardagsmorgni. „En þetta átti ekki að hljóma svona mæðulega, ég elska að taka strætó. Á heyrnatól sem útiloka utanaðkomandi hávaða og þetta eru bara bestu stundirnar,“ bætir hún við en hún hlustar oft á tónlist eða hlaðvörp á leiðinni.

Ýmsum finnst það sjálfsagt skrýtið að búa bíllaus í Hveragerði. „Þegar ég flutti var dóttir mín 13 mánaða, og allir kunningjar mínir sögðu, „Jæja, nú kemst þú ekki upp með þetta lengur, þú þarft að fá þér bíl og taka prófið aftur.“ Ég nefnilega skilaði bílprófinu mínu aftur í kornflexpakkann þaðan sem ég fékk það. Ég tók bílpróf 18 ára en var hræðilegur bílstjóri, bara gat ekki haft hugann við þetta. Ég gleymdi ekki bara að gefa stefnuljós, ég gleymdi að beygja. Svo var ég alltaf komin upp í 140 milli Keflavíkur og Garðs þar sem ég bjó.“ Eftir að Guðrún Eva hafði verið með bílpróf í ár var svo kominn tími til að endurnýja ökuskírteinið. „Ég bara þegjandi og hljóðalaust sleppti því að endurnýja. Flutti í miðbæinn og var labbandi og hjólandi. En eftir að ég flutti til Hveragerðis komst ég að því hvað ég elska strætó mikið.“

Hveragerði hefur löngum verið þekktur sem mikill skáldabær, þar bjuggu til að mynda Kristján frá Djúpalæk, Jóhannes úr Kötlum og Kristmann Guðmundsson um miðja 20. öld. „Hveragerði er mjög stolt af þessari arfleifð,“ segir Guðrún Eva en finna má skilti í bænum með korti yfir hvaða skáld bjuggu hvar. Hún segist ekki viss hvers vegna svona mikill fjöldi skálda bjó í bænum en getur sér til að það hafi eitthvað með lágt húsnæðisverð að gera. „Þegar við fluttum var meðal annars hugmyndin að komast í ódýrara húsnæði til að hafa meiri tíma til að gera nákvæmlega það sem manni sýnist, þurfa ekki að pæla svona mikið í mánaðarmótunum. En líka bara komast nær náttúrunni. Ég segist oft hafa flutt til Hveragerðis því mér fannst Reykjavík of lítil. Málið er að Reykjavík er lítil borg, Hveragerði er vissulega minna, en náttúran er stór.“

„20 svona í viðbót og ég skal gefa þetta út“

Guðrún segir að skáldskapurinn hafi komið til hennar snögglega þegar hún var ung. „Ég fékk hugmynd að skáldsögu þegar ég var 18 ára. Það var bara svona eins og niðurhal. Ég ætlaði aldrei að verða rithöfundur heldur sálfræðingur, dýrlæknir eða eitthvað klassískt.“ Sú skáldsaga kom þó aldrei út en Guðrún Eva segir að það hafi verið frábæran skóla að endurskrifa hana aftur og aftur. Fyrsta bók Guðrúnar Evu, Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, kemur út þegar hún er 22 ára gömul,  en þá fer hún með tvær smásögur til útgefandans Snæbjörns Arngrímssonar hjá Bjarti. „Ég var svo græn og vissi ekki hvernig þetta gekk fyrir sig. Hann tók smásögurnar og sagðist myndu hafa samband þegar hann væri búinn að lesa þær. Ég sagði „nei, veistu hvað þær eru rosalega stuttar. Ég skal bara sitja hér meðan þú lest þær.“ Hann var svo hissa að hann bara hlýddi, og sagði svo „já, 20 svona í viðbót og ég skal gefa þetta út.“ Ég náttúrulega hjólaði heim í algjöru sjokki og við tók sumar þar sem allir sem hitti voru blóðmjólkaðir um kveikju í smásögu.“

Nýjasta bók Guðrúnar Evu heitir Aðferðir til að lifa af og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda og lesenda. „Ég hef oft fengið hlýlegar móttökur fyrir bækur en aldrei alveg eins og fyrir þessa.“ Þetta er stutt skáldsaga með fjórum aðalpersónum sem fá orðið til skiptis. Guðrún Eva segir flestar persónurnar eigi sér fyrirmyndir sem hún þekki að einhverju leyti, sem auðveldi henni að setja sig í spor og skrifa út frá til dæmis 11 ára dreng. „Þegar ég var að skrifa bókina læddist að mér sá ótti að ég myndi verða skömmuð fyrir að hún væri allt of hversdagsleg. Það hefur ekki gerst, hún hefur eiginlega frekar verið lofuð út af því hvað hún er hversdagsleg. Svo eru núna Pabbahelgar að slá í gegn sem er svona önnur tegund af hversdagsleika.“

Hætt að titra þegar hún skrifar

Guðrún Eva segir aldrei hægt að reikna út hvers konar viðtökur bækur fái þegar hún er að skrifa þær. „Þegar maður er alltaf að gefa út verður maður bara að venja sig af því að spá í það. Vera bara undirgefin skáldagyðjunni og eigin smekk, því það er rosa auðvelt að standa með bók þegar hún er alveg samkvæmt eigin sannfæringu og smekk.“ Hönnun kápu nýju bókarinnar er nánast eins og á hennar síðustu, Ástin Texas. „Þessar bækur eiga svo mikið sameiginlegt sem er erfitt að setja fingur á. Sami tónn, blær, stemning.“ Hún rekur það til þess að hún upplifði kulnun fyrir nokkrum árum og báðar bækurnar séu skrifaðar eftir þann fasa í hennar lífi. „Ég held ég hafi haft gott af því. Þær eru skrifaðar í hægara tempói. Þegar ég skrifaði áður titraði ég og skalf. En fyrir þremur árum ákvað ég að ég hefði ekki efni á því lengur að fara inn í þessu manísku orku.“

Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ræddu við Guðrúnu Evu Mínervudóttur í Morgunkaffinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í spilara RÚV.