Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Skerðing fer úr krónu í 65 aura á móti krónu
03.06.2019 - 05:19
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, mælir í dag fyrir frumvarpi þar sem dregið er úr tekjutengdri skerðingu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þannig að hún nemi sextíu og fimm aurum á móti hverri krónu sem líferyisþegar afla sér í stað krónu á móti krónu eins og nú er raunin. Einnig er kveðið á um að þessar skerðingar skuli gerðar upp mánaðarlega, í stað þess að senda fólki bakreikning fyrir heilt ár í árslok.
Fréttablaðið greinir frá þessu. Þar er haft eftir Ásmundi Einari að breytingarnar séu hugsaðar sem aukinn hvati fyrir fólk til að fara út í atvinnulífið. Þá segir hann þetta frumvarp einungis fyrsta skrefið að nýju kerfi og að búast megi við frekari breytingum.
„Dálítið aumt“
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir í samtali við blaðið að hún sé ánægð með þá breytingu sem gerð er á uppgjörsfyrirkomulaginu. Hins vegar þykir henni „dálítið aumt" að ekki skuli gengið lengra í þá átt að afnema skerðingar bóta vegna atvinnutekna, enda vilji Öryrkjabandalagið afnema þær algjörlega. Þetta sé þó skref í rétta átt, segir Þuríður.