Sker upp herör gegn Airbnb

07.08.2018 - 00:37
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Borgarstjóri New York, Bill De Blasio, hefur undirritað lög sem skylda Airbnb og önnur fyrirtæki, sem leigja út húsnæði til skemmri tíma, til að afhenda eftirlitsstofnun nöfn og heimilisföng gestgjafa ellegar greiða háar sektir.

Stuðningsmenn laganna, sem taka gildi eftir 180 daga, segja að með þeim verði dregið úr ólöglegri skammtímaleigu á húsnæði í borginni. Þar með hægi á hækkun leiguverðs í New York.

Airbnb og sambærileg fyrirtæki segja að lögin séu runnin undan rifjum hótelrekenda í borginni. Flestir þeirra sem nýti sér þjónustu Airbnb séu venjulegir íbúar sem leigi út herbergi til að geta náð endum saman.

Þegar lögin taka gildi þurfa leigufyrirtæki að skila inn gögnum um útleigu til eftirlitsstofnunar eða greiða 1500 dollara sekt á hverja íbúð fyrir hvern mánuð sem gögnum er ekki skilað. Það eru rúmar 160 þúsund íslenskar krónur.

New York er stærsti markaður Airbnb í Bandaríkjunum. Í Japan voru sett lög fyrr á þessu ári sem skylduðu þá sem leigja út húsnæði til þess að fá leyfi hjá yfirvöldum og uppfylla ýmis skilyrði, sem gagnrýnendur segja að séu of ströng. Í kjölfarið dróg mjög úr notkun á Airbnb og sambærilegra leigumiðlana í landinu.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi