Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skemmtiferðaskip kom í land án leyfis

30.07.2017 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Jonn Leffmann - Wikimedia Commons
Landhelgisgæslan hafði afskipti af franska skemmtiferðaskipinu Le Boreal sem kom til hafnar á Akranesi í morgun. Skipstjórinn sagðist hafa sérstaka undanþágu til að fara beint í land án þess að vera afgreiddur af tolli, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Engin slík undanþága er hins vegar til. Tollvörður lítur það alvarlegum augum að skemmtiferðaskip hafi komið með farþega í land án þess að fá tollafgreiðslu en ólíklegt er að viðurlögum verði beitt.

Franska skemmtiferðaskipið Le Boreal kom með fjölda farþega til Akraness í morgun en kom þar á undan við í Veiðileysufirði og á Hesteyri, sem er í friðlandi Hornstranda, og það án þess að hafa hlotið tollafgreiðslu. 

Engar undanþágur frá Tollstjóra

Þegar Landhelgisgæslan hafði afskipti af skipinu sagðist skipstjórinn hafa fengið undanþágu frá tollinum til að koma með farþega í land. Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður hjá Tollstjóra, kannast hins vegar ekki við undanþáguna.

„Enda veitum við ekki undanþágur til að fara í ósnortið land, sérstaklega á svona stöðum þar sem aðgengi fólks er takmarkað,“ segir hann í samtali við fréttastofu. Hann segir að það sé litið mjög alvarlegum augum að ekki sé farið eftir lögum og reglum og farþegar komi til landsins án eftirlits.

Stærsta skip sem komið hefur til Akraness

Málið er í skoðun en Kári telur ólíklegt að hörðum viðurlögum verði beitt. Erfitt sé að meta tjón af atviki sem þessu. „Það er erfitt að meta tjónið en aðalmálið er það að viðkomandi skip brýtur þær reglur sem eru í gildi í landinu. Bæði tollareglur og að mér skilst reglur um náttúru Íslands.“

Le Boreal er stærsta skip sem komið hefur í höfn á Akranesi og eina skemmtiferðaskipið, segir hafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum. Farþegar eru í ferð í Borgarfirði í dag og fer skipið aftur hálf sjö í kvöld. Það er bókað aftur til Akraness næsta sumar.

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV