Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skattur á gistingu aðeins hærri í Danmörku

23.04.2017 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Eftir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verður skattur á gistingu hærri á Íslandi en í öllum nágrannalöndunum, nema Danmörku. Birgir Guðmundsson, hótelstjóri Reykjavík Marina, segir að reksturinn muni þyngjast mikið.

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskattur á ferðaþjónustu að hækka upp í 24 prósent næsta sumar. Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið saman yfirlit yfir virðisaukaskatt í nágrannaríkjunum og þar kemur fram að næsta sumar verður skattur á gistingu aðeins hærri í Danmörku. 

Innan ferðaþjónustunnar eru margir áhyggjufullir yfir því að þessi hækkun hafi áhrif á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar til að fá ferðamenn til landsins. „Reksturinn mun verða mun þyngri, sérstaklega í ljósi þess að launahækkanir hafa verið gríðarlegar á síðustu árum, sérstaklega hótelhlutinn af ferðaþjónustunni er mjög mannaflsfrekur þannig að það þýðir að reksturinn mun þyngjast töluvert,“ segir Birgir. 

Meirihluti þingmanna, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, eru sammála um að það þurfi að hækka virðisauka á ferðaþjónustu en greinir á um hvernig og hversu mikið. En af hverju getur ferðaþjónustan ekki farið undir sama hatt og aðrar atvinnugreinar? „Við verðum náttúrulega að horfa á ferðaþjónustuna sem útflutningsgrein, og almennar útflutningsgreinar eru ekki undir virðisaukakerfinu og eins kannski erum við að horfa á alþjóðlega samkeppni og þar erum við töluvert hátt eftir þessar breytingar. Besta dæmið um þetta er kannski Danmörk, þar sem að það er búið að taka þá 25 ár að ná sama magni í ferðaþjónustu og árið 1992 þegar þeir gera hækkun á sínum virðisauka.“