Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skattaáform „veruleg vonbrigði“

18.09.2019 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það veldur verulegum vonbrigðum að ríkistjórnin ætli ekki að létta skattbyrði lág- og millitekjufólks fyrr en um mitt tímabil kjarasamninga. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins. „Launafólk, öryrkjar og aldraðir sem hafa lágar tekjur hafa ekki tíma til að bíða svo lengi – þau þurfa léttari skattbyrði strax,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að lág- og millitekjufólk hafi á síðustu árum borið sífellt þyngri skattbyrðar. Þessum hópi hafi verið lofað umbótum á skattkerfinu til að auka ráðstöfunartekjur. „Að ekki standi til að efna loforðið að fullu fyrr en um mitt samningstímabilið veldur þess vegna verulegum vonbrigðum,“ segir í ályktuninni.

Þá ítrekar Alþýðusambandið þá afstöðu sína að nauðsynlegt að þegar breyta eigi tekjuskattskerfinu fylgi áform um að styrkja aðra tekjustofna s.s. með upptöku hátekjuskatts á ofurlaun, hækkun fjármagnstekjuskatts og sanngjörnu afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. „Vandi ríkisfjármálastefnunnar sem byggt hefur á því að treysta á auknar tekjur í uppsveiflu og veikja tekjustofna hefur nú raungerst,“ segir í ályktuninni.