Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skapandi möguleiki lögbrota

Mynd: Pexels / Pexels

Skapandi möguleiki lögbrota

02.02.2020 - 11:00

Höfundar

„Víglínurnar eru óskýrar. Sumsstaðar er veggjakrot veggjalist. Annarsstaðar er veggjalist veggjakrot. Fyrir gangandi vegfarendur getur jafnvel verið erfitt að greina á milli,“ segir Tómas Ævar Ólafsson í þriðja, og síðasta, pistli sínum um veggjakrot.

Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Hvítur veggur, nýmálaður. Hugmyndirnar hverfa frá mér. Ég held á þykkum tússpennanum og nýi strákurinn í bekknum stendur vörð. Hvað á ég að skrifa? Hvað skrifar fólk vanalega á svona veggi? Á ég kannski frekar að teikna eitthvað? Hann rekur á eftir mér segir mér bara að skrifa fokk eða shit eða eitthvað. Hann er nýkominn frá útlöndum og honum fylgja spennandi andspyrnustraumar. Ég reyni að rifja upp gömlu orðin og fyrrum teikningar sem prýddu vegginn en ekkert kemur upp í hugann. Ég er að kvíðhangsa. Nýi strákurinn gefst upp á biðinni eða kannski því að fylgjast með þessu ónotaástandi mínu og biður mig um að skipta við sig. Það tekur hann aðeins örfáar sekúndur að teikna stórt typpi á vegginn. Verk sem ögrar. Við þorum hins vegar ekki að virða það almennilega fyrir okkur og að móta okkur skýra skoðun á því heldur tökum við á rás og hlaupum eins og fætur toga. Ég finn fiðringinn í maganum og hjartsláttinn í hausnum, hugsa upp fjarvistarsönnun eftir fjarvistarsönnun. Svona er það líklega að hlaupa undan lögreglunni sjálfri, svona er að vera afbrotamaður.

Lögbrot eru alvarlegur hlutur og mig langar ekki að hvetja þig, ágæti lesandi, til að brjóta lögin. En þau fela hins vegar í sér skapandi möguleika. Þau lög sem stjórna og afmarka hegðun okkar eru gjarnan talin lúta tveimur straumum. Þessum sem við lærum í menntaskóla. Annars vegar höfum við skjalfest lög ríkisins sem eru vandlega skráð á bók og framfylgt af hvers kyns ríkisstofnunum. Hins vegar höfum við hinar óskrifuðu reglur almennings sem birtast fremur í formi viðtekinna siða, venja og hefða sem við erfum frá eldri kynslóðum; þetta þverstæðukennda norm sem við hrærumst flest öll innan. Semsagt skráð og óskráð lög. Reglur í þessum tvöfalda skilningi skapa hverjum einstaklingi fjölmarga hegðunarramma sem skarast saman. Hver lagasetning, hvort sem hún er skráð eða óskráð hefur síðan tvöfalda virkni annars vegar heftar hún ákveðin flæði og hins vegar kemur hún á ákveðnum flæðum - þú skalt/þú skalt ekki eða svona á að/svona á ekki.

Þegar ég var unglingur í bæjarvinnu fékk ég það starf að elta uppi óvelkomið veggjakrot, spúla það af með háþrýstidælu og mála síðan veggina aftur. Í flestum tilfellum var veggjakrotið í gróteskustíl, brenglaðir stafir sem erfitt var að lesa, mis vel teiknuð kynfæri eða skýr og greinileg blótsyrði og móðganir. Allt þetta strokaði ég út og málað yfir. Eftir stóð einkennilega hreinn og nýmálaður blettur á annars rykugum vegg. Öðru hverju rákumst við vinnufélagarnir á vandaðara og fallegra krot sem var greinilega úthugsað hvað varðar skilaboð og staðsetningu. Slík verk lífguðu vissulega upp á einsleitt umhverfið í annars syfjulegum kaupstaðnum. En verkefni okkar var einfalt og öll óvelkomin veggjatákn féllu undir einfeldingslegan flokk veggjakrots og skildi fjarlægt. Því eyddum við mörgum klukkutímum í að stroka út skilaboð og teikningar sem við töldum hafa táknrænt og jafnvel listrænt vægi. Þegar ég var unglingur strokaði ég út listaverk annarra.

Lagakerfin tvöföldu, skrifuðu og óskrifuðu, hafa áhrif á hvort annað og tengjast órofa böndum. Þau flæða inn og út úr hvort öðru og reglur breytast, hvort sem þær eru skjalfestar eður ei. Lögin skilgreina svæði. Afmarka hegðun, draga línur utan um sjálfsverur og hópa og fyrirtæki og stofnanir. En um leið og ein lína birtist verður andófið til um leið, sama hversu lítil og þunn línan er. Jafnvel bara einföld lóðamörk bjóða upp á nágrannadeilur um hvernig skal setja niður staura eða hversu hátt trén mega vaxa. Um leið og reglugerð gegn veggjakroti er samþykkt í lög verða óformlegar fagurfræðihugmyndir að lagabókstaf sem framfylgja má með ákveðinni tegund af ritskoðun og ofbeldi. Veggjakrot sem andóf, sem spennandi gjörningur, sem glæpur birtist að sjálfsögðu í sömu sveipan og lög eru sett gegn því. Þessi einföldu veggjaskrif eru tiltölulega meinlaust lagabrot en lagabrot engu að síður. Og það er vissulega mikil spenna sem fylgir því að brjóta lögin. Ágætis kikk fyrir litla athöfn.

Veggjakrot er viðvarandi vandamál í Reykjavík sagði Fréttastofa Rúv um árið. Það er andlega niðurdrepandi sagði önnur frétt. Og já veggjakrot er skemmdarverk. Fjárhagstjónið sem eitt krot veldur er gjarnan talið í tugum þúsunda króna. Það er asnaskapur að tússa, mála eða spreyja. Það er spennandi, það ertir til reiði, það er kúlkeppni, það ögrar smekk margra. Veggjakrot er lifandi fagurferðilegt stríð. Auðir einlitir fletir gegn svörtum hlykkjóttum línum, óspennandi einingaveggir gegn vönduðum listaverkum og allt þar á milli. Jah, það er reyndar rosa stór heimur þarna á milli. Auður flötur og svört lína eru ýkjurnar – skólabókardæmi, það sem gjarnan má stroka út. En á milli getur verið svo ótrúlega margt eins útmæld merking á veggjum og gangstéttum um fyrirhugaðar framkvæmdir eða skrautleg teikning framan á matvöruverslun sem auglýsir opnunartíma eða ósmekklegt og útkrotað reykingaport sem á að vera ósmekklegt og útkrotað reykingaport eða spreyjaðar línur körfuboltavallar. O.s.frv. o.s.frv.

Víglínurnar eru óskýrar. Sumsstaðar er veggjakrot veggjalist. Annarsstaðar er veggjalist veggjakrot. Fyrir gangandi vegfarendur getur jafnvel verið erfitt að greina á milli. Ekki að það skipti fólk máli að vita hvað er flokkað sem krot eða list af ríkinu. Það er ekki eins og hugsun okkar sé að reyna að setja krotið í einhverja flokka þegar við sjáum það. En það sem skiptir máli er komandi ofbeldi. Þær stofnanir samfélagsins sem fjarlægja leyfislausu krotin. Þessir útstrokarar sem hafa ekkert um verkin að segja, stroka þau bara út samkvæmt lagabókstaf. Slík strokarateymi þyrftu helst að hafa einhvers konar vald yfir því hvað er fjarlægt og hvað ekki eða allavega geta tilkynnt áhugaverð krot og frestað aðgerðum á meðan krotið er lagt fyrir nefnd.

Mig langar því að kalla eftir þessari nefnd. Sérstakri Veggjanefnd Reykjavíkur eða jafnvel ríkisins. Nefnd sem virkar kannski smá eins og mannanafnanefnd. Og já hún verður umdeild. Þetta yrði nefnd sem fengi sérstakt leyfi til að neyðarfriðlýsa ákveðin veggjakrot sem gætu mögulega verið flokkuð sem veggjalist. Friðunin myndi halda í eitt ár, nefndin myndi funda, ráðfæra sig við sérfræðinga og síðan tilkynna niðurstöður sínar við hátíðlega athöfn ár hvert. Nokkur verk yrðu valin til lengri friðunar en hin strokuð út.

Það gefur að skilja að ekki yrðu allir sáttir við slíkt. Sérstaklega þau sem eiga veggi sem krotað hefur verið á. Það myndi örugglega fjúka í þau þegar krotið yrði friðlýst. Kannski myndi veggjakrot fyrst þá verða raunverulegt fagurferðilegt stríð. En á hinn boginn tel ég að ef slík nefnd tæki til starfa með tilheyrandi hátíðleika þá gæti krotið orðið að eins konar keppni. Gróteska krotið gæti kannski minnkað og í staðin myndu krotarar vanda meira til verka. Það gætu jafnvel verið verðlaun til að hvetja ólöglega krotara til að gera eitthvað flott og fá það metið löglegt. Koma því óskráða inn í megni þess skráða. Breyta kroti í list. Þessar aðgerðir gætu hrint af stað ferskri veggjakrotsbyltingu í borg og bæjum þar sem allt veggjakrot reynir að vera veggjalist. Byggðir Íslands gætu þannig orðið óformleg veggjalistar-söfn.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Hvar og hvernig lifir Flatus?

Pistlar

Samnefnarinn sem sannar að manneskjan er vitleysingur