Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skammtímaaðgerðir ætti að forðast

22.05.2017 - 19:54
Mynd: RÚV / RÚV
Krónan hefur styrkst um tæp 40% á tveimur og hálfu ári. Hagfræðingur við Háskóla Íslands segir að sporna ætti gegn gengissveiflum með því að hækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum. Forsætisráðherra segir að forðast eigi skammtímaaðgerðir til að reyna að hafa áhrif á styrkingu krónunnar. Hún sé vísbending um tiltrú á íslensku efnahagslífi. Gripið hafi verið til langtímaaðgerða eins og að losa höft og skoða fjárfestingar lífeyrissjóða.

 

Krónan hefur frá áramótum styrkst um tæp níu prósent. Ef við lítum aftur til ársbyrjunar 2016 þá nemur styrkingin 28%. Og við lítum ári lengra aftur í tímann, til ársbyrjunar 2015 þá nemur styrkingin nærri 39%. „Þetta er töluvert mikil styrking. Hún ber merki þess að það sé mikil tiltrú á því sem er að gerast á Íslandi. Það eru kannski að öðru leyti tvær hliðar á þessu. Annars vegar það að þetta gagnast öllum almenningi, almennt séð með því að verðlag er þá lægra og innfluttar vörur hagstæðar í innkaupum. En á hinn bóginn er full ástæða til að spyrja sig hvernig útflutningsfyrirtækin standa sig við þetta sterkara gengi,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. 

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að við styrkingu krónunnar, aukist innflutningur og styrkingin vinni gegn útflutningi. „Þannig að einhver útflutningsfyrirtæki munu missa einhverja markaði og einhverjir ferðamenn munu ekki koma hingað.  Það verður einhver aðlögun og fyrir suma verða þetta svo slæmar fréttir að þeir geta kallað það hrun en svona ef við lítum á þjóðfélagið í heild þá er engin sérstök ástæða til þess að ætla að það verði eitthvert hrun,“ segir Gylfi.

Ríkisstjórnin hefur gripið til ráðstafana til að stýra innflæði gjaldeyris, einkum þegar menn hyggjast hagnast á vaxtamun. „Og við höfum verið að losa um gjaldeyrishöftin og við höfum verið að skoða það hvort við séum að binda of mikið fjármagn lífeyrissjóðanna hér innanlands,“ segir Bjarni.

Gylfi segir að allar sveiflur, hvort sem það er í verðlagi eða í gengi, séu óþægilegar.þær eru óþægilegar. „Óstöðugleikinn er í sjálfu sér slæmur og það er auðvitað eitthvað sem hagstjórn ætti að reyna að sporna gegn,“ segir Gylfi. Hann bendir á að Seðlabankinn hafi keypt mikinn gjaldeyri og forðinn sé orðinn mjög stór. Þá sé jákvætt að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ríkisvaldið hafi fleiri leiðir til að kæla hagkerfið. „Með því að draga úr ríkisútgjöldum, með því að hækka skatta,“ segir Gylfi. 

„Því er haldið fram að hér sé rekin alltof aðhaldssöm ríkisfjármálastefna, það er það sem maður heyrir hér á Alþingi, langmest frá stjórnarandstöðunni,“ segir Bjarni. Hann bendir á að fleira geti kælt hagkerfið. „Sterkara gengi getur gert það sömuleiðis þegar í hlut eiga útflutningsfyrirtækin,“ segir Bjarni. 

„Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af getu útflutningsgreinanna til að standa við þetta gengi. En þar koma fleiri þættir inn en bara þróun gengisins. Ég bendi á það að við höfum verið að hækka laun mjög verulega á mjög skömmum tíma og þegar við erum að horfa til þess hvað stjórnvöld eigi að vera að gera þá verðum við að horfa til langs tíma hverju sinni og einhverjar skammtíma ráðstafanir núna til þess að hafa áhrif á stöðu gengisins eru svona smáskammtalækningar sem ég hef ekki mikla trú á,“ segir Bjarni.